135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:27]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar Margrét Thatcher komst til valda í Bretlandi og hún hófst handa við að markaðsvæða og einkavæða samfélagsþjónustuna og hagkerfið þar þá sagði hún að forsenda þess að það gæti gengið eftir væri að ráðast gegn því sem hún kallaði verstu einokunarhringina. Hverjir voru það? Það voru stéttarfélögin. Það þyrfti að veikja verkalýðshreyfinguna og grafa undan þeim. Út á það gengur þetta frumvarp m.a. og við erum að reyna að koma í veg fyrir það.

Það er verið að meina félögum eins og Ljósmæðrafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga að ganga til samninga við ríkið. Og menn tala um og ég heyrði sagt hér úti í sal: Þetta er óþarft og slæmt samráð.

En er þá ekki slæmt samráð að eiga sér stað núna í Karphúsinu þar sem ljósmæður eru á rökstólum við samninganefnd ríkisins um sameiginleg kjör sín? (Forseti hringir.) Og nú ætlar Alþingi Íslendinga að grafa undan (Forseti hringir.) félögum á borð við Ljósmæðrafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og verkalýðshreyfinguna í heild sinni. Og það er jafnaðarmannaflokkurinn, svokallaður, (Forseti hringir.) sem stendur að þessu.