136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í tillögunni felst að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá sjóðnum á grundvelli þeirrar viljayfirlýsingar sem fylgir tillögunni.

Það er eðlilegt að menn fari um víðan völl í umræðunni um þingsályktunartillöguna, rifji upp aðdraganda þeirrar stöðu sem við erum komin í, lýsi skoðunum sínum á því hvar ábyrgðin hvíli og komi fram með hugmyndir um hvernig úr eigi að spila.

Ég tel mikilvægt í tilefni af þessu þingmáli sérstaklega að við ræðum um þær efnahagslegu aðgerðir sem hvíla að baki lánsumsókninni og ég vil byrja á að segja að ég tel að við höfum ekki verið í neinni stöðu til annars en að sækjast eftir láni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nægir í því efni að vísa til þess langa tímabils sem við höfum sóst eftir láni hjá vinaríkjum okkar og bandamönnum. Reyndar vorum við farin að þvælast að því er virðist heiminn á enda og kannski farið nokkra hringi um hnöttinn í leit að stuðningi til þess að efla gjaldeyrisvaraforðann og forða því hruni krónunnar sem síðar varð.

Hér er komin fram áætlun um hvernig við getum að nýju stóreflt gjaldeyrisvaraforðann þannig að hann verði stærri en hann hefur nokkru sinni fyrr verið og megintilgangur þeirrar áætlunar sem hér er verið að tefla fram er einmitt sá, eins og segir í tillögunni, að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með markvissum og öflugum aðgerðum. Ég tel að samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þessu efni sé gríðarlega mikilvægt, ég tel að það sé algjörlega bráðnauðsynlegt að stórefla gjaldeyrisvaraforðann eins og til stendur, og eins og fram hefur komið munu fylgja þessari lánveitingu lán annars staðar frá allt að 3 milljörðum dollara.

Við getum síðan rætt um það í sjálfu sér hvernig með eigi að fara í framhaldinu. Hvernig við getum best tryggt að gengi krónunnar náist stöðugt og hvernig við getum fengið að nýju styrk í krónuna en ef við horfum á sögulegt raungengi hennar er auðvitað augljóst að það er allt of veikt og í engu samræmi við það sem það hefur verið, ekki bara undanfarin nokkur ár heldur miklu lengra aftur í tímann. Það er augljóst að þegar jafnvægi næst að nýju í þjóðarbúskapinn mun krónan styrkjast. Til þess að stytta það tímabil sem það tekur að ná þessu jafnvægi að nýju er gríðarlega mikilvægt að vera með trúverðug tól, öflugur gjaldeyrisvaraforði er augljóslega það mikilvægasta, samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til þess að sækjast eftir öðrum lánum er líka gríðarlega mikilvægt. Aðrar aðgerðir hafa verið kynntar. Ég tek undir með hverjum þeim sem kvartar undan háu vaxtastigi. Því er hins vegar ekki að leyna að það kann að þurfa að grípa til slíkra ráðstafana til viðbótar við hið fyrrnefnda og þar að auki að grípa til hafta á frjálsu flæði fjármagns til að áætlanir um að ná styrk í gjaldmiðilinn nái fram að ganga. Ég vil kannski ljúka þessum þætti máls míns um mikilvægi þess að styrkja gengi krónunnar á því að segja að það er ekkert eitt sem stjórnvöld geta gert í þeirri stöðu sem nú er uppi til aðstoðar fyrirtækjum og fjölskyldum í landinu sem skiptir meira máli en einmitt þetta, að koma jafnvægi á gjaldmiðilinn og styrkja gengi íslensku krónunnar. Það mun þegar fram í sækir hamla verðbólgu, ná henni niður og við vitum að vextir munu þá lækka hratt í kjölfarið.

Í viljayfirlýsingunni er farið í einum 27 liðum yfir áform íslenskra stjórnvalda og ekki er tími til þess hér að fara yfir alla þá þætti sem þar er fjallað um. Mig langar til að gera að umtalsefni aðdraganda þess að lán þetta var veitt af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þá staðreynd að aðrar þjóðir sem aðild eiga að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tóku umsókn okkar í raun í gíslingu vegna óskyldra mála. (Gripið fram í: Hvaða þjóðir?) Það hefur komið fram í samskiptum okkar við Evrópusambandsþjóðirnar að þær gerðu það að skilyrði fyrir jákvæðri afgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, gerðu það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við lánsumsókn okkar að deilum okkar við viðkomandi ríki í Evrópusambandinu vegna innlána á Evrópska efnahagssvæðinu yrði komið í traustan farveg áður en lánsumsóknin yrði afgreidd.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst þetta ekki bara hafa verið óheppilegt, mér finnst þetta hafa verið fullkomlega óásættanlegt og gríðarlega mikill álitshnekkir fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að með þessu var íslenskum stjórnvöldum stillt upp við vegg í þeirri erfiðu stöðu sem við vorum og hægt er að færa gild rök fyrir því að þetta hefur beinlínis haft í för með sér mikið tjón fyrir okkur, þær vikur sem töpuðust, vegna þess að málið var tekið með þessum hætti í gíslingu. Og ef maður ætti að fjalla aðeins í þessu sambandi um efni þeirrar deilu sem þarna var um að ræða snerist hún auðvitað um það innstæðutryggingakerfi sem komið hefur verið upp af Evrópska efnahagssvæðinu, sem er meingallað. Evrópusambandsþjóðirnar þorðu ekki að horfast í augu við það þó að þær hafi nú í millitíðinni ákveðið að tefla fram hugmyndum um að stórefla það kerfi, m.a. með því að fara með lágmarkstrygginguna upp í 100 þúsund evrur úr þeim 20 þúsund evrum sem gilda í dag. Þær hafa líka teflt fram hugmyndum um að afnema það sem við getum kallað ákveðna sjálfsábyrgð í kerfinu og eru einnig með hugmyndir um að fá algera einsleitni í kerfið á milli landa. Reyndar hefur ekki enn komið upp hugmyndin um að tengja innstæður tryggingasjóðanna saman, sem að mínu áliti væri eina vitið að gera, til að það væri í raun samtrygging á milli kerfanna á þessum sameiginlega innra markaði sem gengur út á það að fella niður landamæri í viðskiptum og tryggja frjálst flæði fjármagns, þjónustu og heimila bönkum að starfa þvert yfir landamæri og sækja þangað innlán. Ég tel að við höfum í þessari deilu á endanum ekki átt margra annarra kosta völ en að setja málið í þann farveg sem það er komið í í dag en þar vorum við að mínu áliti höfð undir og staðreyndin er sú að Evrópusambandið, hin Evrópusambandsríkin, samherjar okkar á Evrópska efnahagssvæðinu höfðu einfaldlega ekki efni á því að sú niðurstaða fengist í það mál sem við vildum að yrði.

Því má reyndar líka halda fram að við Íslendingar sem þjóð hefðum ekki heldur haft efni á því að tapa í einu og öllu þeim málsástæðum sem við tefldum fram í þessari deilu og þess vegna má segja að það hafi verið skynsamlegt að færa þetta í þann samningaferil sem orðið hefur. Eftir situr að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og umsókn okkar þangað var tekin í gíslingu í millitíðinni. Það finnst mér hafa verið stóralvarlegt mál og eitthvað sem er mjög til umhugsunar í tengslum við þann sjóð sem helst hefur verið gagnrýndur af þeim sem mest hafa þurft á aðstoð þar að halda í gegnum tíðina.

Ég vil að lokum segja að það koma til með að verða erfiðir tímar í ríkisfjármálunum fram undan við að ná að halda ríkisútgjöldum niðri, við þurfum að fara í verulega mikinn niðurskurð. Ég held að það sé rétt stefna að reyna að halda í mannaflsfrekar framkvæmdir en við munum þurfa að skera niður rekstrarkostnað þar sem það er hægt. Ef rétt verður á spilum haldið munum við að nýju ná jafnvægi í hagkerfinu, ná hagvexti innan fárra ára og jafnvel afgangi á ríkisfjárlögum (Forseti hringir.) innan fimm ára ef samstaða næst um þær nauðsynlegu aðgerðir sem grípa þarf til.