136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[16:22]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Spurt er af hverju vantrauststillaga sé lögð fyrir hv. Alþingi. Svarið er einfaldlega þannig að hæstv. ríkisstjórn er rúin trausti meðal þjóðarinnar og það hlýtur að vera lýðræðisleg skylda stjórnarandstöðu við slíkar aðstæður að bera upp slíka tillögu. Stuðningur almennings við núverandi ríkisstjórn hefur minnkað frá mánuði til mánaðar frá því að hún tók við völdum og það er auðvitað umhugsunarverð þróun af hálfu stjórnarflokkanna. (Iðnrh.: Hvað með fylgi Framsóknarflokksins?) Gjammar nú fram í hæstv. iðnaðarráðherra sem hefur setið á stól sínum í dag og gjammað fram í, stundum skemmtilegur en verður því miður þreytandi þegar frá líður. (Gripið fram í: En fylgi Framsóknarflokksins?)

Stórir atburðir hafa gerst sem hér hafa verið ræddir og það er ljóst að ríkisstjórnin eða a.m.k. ráðherrar í ríkisstjórninni höfðu ýmsar upplýsingar og vitneskju um stöðu og þróun mála varðandi bankakerfið og fjármálalífið allt þetta ár. Það hefur komið fram að Seðlabankinn hefur veitt ráðherrum upplýsingar um hvað væri í gangi. Það hefur líka komið fram að þeim upplýsingum var ekki miðlað til annarra ráðherra. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir, virðulegi forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra hafi sagt að hann hafi ekki haft upplýsingar um þetta. Hann leiðréttir mig þá ef ég fer ekki rétt með. Almenningi var sagt að allt væri í himnalagi. Margir aðilar, bæði innlendir og erlendir, hafa allt þetta ár og jafnvel lengur varað við því sem var í gangi. Stjórnarandstaðan gerði það margoft á síðasta þingvetri, tók upp umræðu um málið, varaði við og kallaði eftir aðgerðum. Það hefur ekki verið hlustað. Hæstv. ríkisstjórn svaf nefnilega mjög djúpum þyrnirósarsvefni, það er bara þannig, og síðan hrökkva menn við þegar allt er komið í óefni. Og þá er spurt um ábyrgð, eðlilega spyr þjóðin hver beri ábyrgðina. Það vakti athygli um helgina þegar formaður Samfylkingarinnar talaði um það fyrir framan klapplið sitt í sínum flokki að Samfylkingin beri enga ábyrgð. Þetta er málefnalegt, hæstv. forseti. Er formaður Samfylkingarinnar þar með að vísa allri ábyrgð á Sjálfstæðisflokkinn, samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn? Mér finnst augljóst að það sé þannig. En þetta er, virðulegur forseti, eitt lítið dæmi um það sem Samfylkingin kann best, að halda uppi lýðskrumi.

Það var líka athyglisvert áðan að hlusta á ótrúlega palladóma hæstv. umhverfisráðherra um stjórnarandstöðuflokkana. Það vantaði bara í ræðu hæstv. ráðherra að allir hafi verið ömurlegir nema hún. Það er hátt risið á hæstv. ráðherrum Samfylkingarinnar í þessari umræðu eða hitt þó heldur og þetta er ráðherrann sem vill kosningar en bara ekki núna. Það hefur komið fram að tveir hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar hafa lýst vantrausti á ríkisstjórnina og kallað eftir kosningum á næsta ári. Það hefur líka komið fram að nokkrir þingmanna flokksins hafa gert slíkt hið sama. Þetta er líka eitt dæmið um lýðskrum í Samfylkingunni sem er auðvitað alþekkt og við þekkjum. Það hafa orðið alls konar uppákomur milli stjórnarflokkanna og sagt hefur verið úr þessum ræðustól, sem ég held að sé nokkurt korn í, að Samfylkingin sé að berjast um það að taka forustu í stjórnarandstöðunni á Alþingi. Og það er ekki bara á Alþingi heldur hefur komið fram að hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar hafi lagt fram bókanir á fundum ríkisstjórnar sem ég leyfi mér að fullyrða að er nánast einsdæmi. Það varðar m.a. seðlabankastjóra og varðar líka það þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf út veiðikvóta í hvalveiðum, að ég hygg á síðasta ári. Þá sáu ráðherrar Samfylkingarinnar sig knúna til að leggja fram bókun um að þeir væru ekki sammála því.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur líka haldið Alþingi frá umfjöllun um þessi mikilvægu mál að miklu leyti og það er auðvitað með stuðningi og tilstyrk þingflokka stjórnarflokkanna. Þeir bera fyrst og fremst ábyrgð á því. Mér finnst þetta dæmi um hversu óheppilegt það er að ríkisstjórn styðjist við jafnstóran þingmeirihluta og raun ber vitni vegna þess að þá kemst hún einfaldlega upp með að vinna eins og hún hefur gert. Það er auðvitað slæmt út frá lýðræðislegum sjónarmiðum og á ekki að líðast á hinu háa Alþingi. Almenningur hefur ekki mikið verið upplýstur nema með blaðamannafundum þar sem farið hefur verið yfir fréttayfirlit síðustu viku eða síðustu daga og ég hef saknað þess, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra kæmi fram og ávarpaði þjóð sína oftar en hann hefur gert til að upplýsa hana um hvað sé í gangi og hvað sé fram undan. Það kraumar mikið undir meðal þjóðarinnar og þess vegna hefði ég talið að slíkt væri nauðsynlegt.

Þegar ríkisstjórnin var mynduð á síðasta ári kom fram hjá formanni Samfylkingarinnar að nú væri loksins komin ríkisstjórn til valda sem mundi hafa að leiðarljósi samráð og sættir. Þetta var mjög fallegt hjá hæstv. utanríkisráðherra. En það hefur líka komið fram á síðustu vikum og mánuðum að það hefur ekki verið mikið um samráð af hálfu ríkisstjórnar við ýmsa aðila í þjóðfélaginu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa t.d. kvartað mikið yfir því hversu lítið samráð hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég get tínt margt fleira til hér en það er ekkert skrýtið þó að sú staða sé uppi að hæstv. ríkisstjórn sé rúin trausti meðal þjóðar sinnar. Það er hægt að ræða margt í því sambandi og margt hefur komið fram hér en ég vil segja að lokum að ríkisstjórn sem er rúin trausti meðal þjóðar sinnar á sér ekki tilvistargrundvöll. Þess vegna á hún að fara frá. Ísland er lýðræðisríki og nú á lýðræðið að ná fram að ganga.