136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarpið felur það í sér að í raun og veru er verið að þrengja heimildirnar til að flytja óunninn fisk úr landi. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að þær heimildir séu til staðar að menn geti flutt þennan fisk úr landi án þess að hann sé vigtaður. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því að sá sem vill flytja fiskinn óunninn úr landi — sem geta auðvitað bæði verið hagsmunir sjómanna og útvegsmanna, þetta getur verið mjög arðbær útflutningsstarfsemi sem má ekki gera lítið úr — ef útgerðarmenn eða sjómenn ætla að flytja fiskinn óunninn úr landi og án þess að vigta hann þá ber þeim jafnframt að tilkynna það á þennan tilboðsmarkað. Það er því verið að opna aðgengi fiskvinnslunnar að fiskinum. Þetta er kjarni málsins, frumvarpið snýst um þetta, þ.e. að auka og bæta aðgengi fiskvinnslunnar að fiskinum.

Svo ég svari spurningu hv. þingmanns þá er ekki ætlun mín að gera annað en nákvæmlega samkvæmt orðanna hljóðan í þessum lögum, þannig að heimildirnar til að flytja út verða auðvitað bundnar þessu lagaákvæði. Áður en menn flytja þennan fisk úr landi þurfa þeir að tilkynna það með fyrirvara eins og kveðið er á um í lögunum þannig að fiskverkendur geti gert ráðstafanir og boðið í fiskinn og aflað sér hráefnis með því móti. Ég er sannfærður um að þetta mun hafa þau áhrif í fyrsta lagi að stuðla að því að auka umsvifin á fiskmörkuðunum og í öðru lagi að bæta aðgengi fiskvinnslunnar að fiskinum og þjónar þar með þeim markmiðum sem hv. þingmaður talaði um og talar hér í raun fyrir og ég er alveg sammála honum um. Auðvitað viljum við reyna að stuðla að því að sem mest af fiskinum sé unnið hér á landi en við vitum það jafnframt að ef við settum um það ákvæði að allur þessi fiskur skyldi vigtaður hér á landi áður en hann væri fluttur út þá væri hann rifinn upp úr ís, það mundi hafa áhrif á hráefnisgæðin og draga þannig úr útflutningsverðmætum okkar og það getur ekki verið markmið okkar varðandi útflutning á fiski.