136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[20:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér hefur nú verið rætt allítarlega um þennan svokallaða bandorm ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Heitið bandormur hefur aldrei þótt neitt sérstakt lofsyrði í íslensku máli né heldur hefur þótt neitt sérstaklega gott að ganga með bandorm eins og ríkisstjórnin gerir í máli sínu hér.

Á síðustu öld var hér skipulagt átak til að útrýma bandormi. Hann þótti dæmi um óhollustu og óhreinindi og fávisku í umgengni við heilbrigðismál og það var átak einmitt hjá heilbrigðisstéttum og öllum þeim sem vildu mæla sig og taka upp menntaða búskaparhætti að útrýma bandorminum.

Ríkisstjórnin sem nú situr virðist gera sér far um að endurvekja allt sem víkur að bandorminum og fylgikvillum hans. Hér er einn slíkur fluttur sem tekur á hvernig ríkisstjórnin hyggst út frá bandormshugsuninni fá lagaheimildir til að þjarma að ákveðnum stéttum í landinu til að ná fram markmiðum sínum.

Eitt af því sem þar er gert er að segja upp samningi við bændur. Búvörusamningnum, sem er eins konar sáttmáli á milli þjóðarinnar, ríkisstjórnarinnar, Alþingis og bænda um að bændur tryggi ákveðna framleiðslu í mjólk, kjötvörum og grænmeti sem fæðuöryggi fyrir neytendur gegn því að bændur hafi þá líka lágmarkstryggingu, bæði fyrir búrekstur sinn og kjör.

Þessum samningi er nú sagt upp einhliða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar á að krækja í af bændum um 800–1.000 millj. kr. eftir því hver verðþróunin verður. Þær eru svo mikilvægar upp í þetta gat, upp í þessi gjöld, upp í þessar gríðarlegu skuldbindingar upp á 1.000, 1.200 eða 1.400 milljarða kr. Það veit enginn. En allir vita að þetta er einhvers staðar í kringum 1.000 milljarðar eða meira. Þá er afar nauðsynlegt að ná í bændur, sem hafa greinilega verið ofaldir á síðustu árum að mati ríkisstjórnarinnar og ná af þeim 800 millj. kr. Með því að segja upp við þá búvörusamningum.

Eðlilega hafa samtök bænda bent á að þarna er vegið að einni af grunnstoðum íslensks samfélags og öryggiskerfis sem er landbúnaðurinn. Þau hafa líka lýst því yfir að hingað til hafi ekki staðið á bændum að koma til samráðs — hvort sem er með ríkisvaldi eða öðrum þjóðfélagshópum — um að taka þátt í aðgerðum.

Ég minni á þjóðarsáttarsamningana á sínum tíma þar sem Bændasamtökin gegndu eðlilega lykilhlutverki. Ég held að fræg sé myndin sem var þá einhvers konar táknmynd þjóðarsáttarsamninganna þar sem forustumenn stærstu launþegasamtakanna og formaður Bændasamtakanna tókust í hendur að samningi loknum. Þess vegna er þetta með ólíkindum, en þó táknrænt fyrir vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar, að án nokkurs samráðs, með fullkominni valdbeitingu, er samningunum sagt upp og þeir skertir.

Þó að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hafi af veikum mætti sagt: Þeim er ekkert sagt upp. Þeir eru bara skertir. Það er bara farið inn í þá og verðbótaþátturinn skertur og svona, þá er þetta er samningurinn allur og þegar hann var samþykktur á sínum tíma þá var það hér. Hann var borinn upp undir Alþingi. Hann var líka borinn upp við alla bændur í landinu sem greiddu atkvæði um hann. Þannig að þessi gjörningur er ríkisstjórninni til skammar og ég dreg í efa að hann standist lög. Að ríkisstjórnin geti einhliða brotið lög á bændum eða stefnt afkomu þeirra og framleiðsluöryggi í hættu.

Ég mun þess vegna, frú forseti, vera reiðubúinn að starfa bæði hér innan þings og einnig með samtökum bænda til að berjast gegn valdbeitingarháttalagi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

En þetta er allt á eina bókina lært. Við höfum upplifað hreint valdbeitingarhaust þar sem ríkisstjórnin hefur einhliða og með miklum hroka staðið í alls konar makki, samningum og samningsleysi, hinum og þessum aðgerðum og skrifað undir skuldbindingar hér og þar í heiminum án þess að Alþingi eða þjóðin hefði þar nokkra hugmynd um. Þetta er kannski alvarlegasti ljóðurinn á ríkisstjórninni og hvernig hún hefur troðið hér niður lýðræðið. Ekki er nóg að vera í erfiðri stöðu. Hún er erfið. En þá einmitt er brýnt að lýðræðið sé virt.

Maður veltir því fyrir sér, úr því að ástæða þótti til að fara inn í samningana sem hér um ræðir, að fullt er til af öðrum samningum. Af hverju er ekki líka farið inn í þá? Úr starfi mínu í fjárlaganefnd veit ég um allmarga samninga, sem ríkisstjórnin hefur gert á undanförnum árum. Einkavæðingarsamninga. Ég minnist samningsins sem Háskólinn á Akureyri og þeir aðilar sem honum voru tengdir, að mig minnir Náttúrufræðistofnun, voru þvingaðir til þess að gera við einkaaðila um húsnæði. Voru þvingaðir til þess. Á hverju ári síðan þá hefur þurft að taka sérstaklega fyrir fjárbeiðni Háskólans á Akureyri til að standa undir verðbótum og verðhækkunum á þessum leigusamningi.

Hvernig ætli sé með húseignir Alþingis? Fróðlegt væri að vita hvernig t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahagsnefndar, sem á nú að fylgjast með að ekki séu gerðir samningar sem eru skuldbindandi með þessum hætti. Hvernig ætli sé með samninga um húsnæðið sem Alþingi er með á leigu? (PHB: Það veit fjárlaganefnd.) Ætli þeir séu ekki verðbættir? Ætli það sé ekki verðbótaþáttur inni í samningnum? (Gripið fram í.) Af hverju er ekki farið inn í þá? Það ættu ábyrgðaraðilar í meiri hlutanum að vita. Af hverju er ekki farið inn í slíka samninga ef menn telja að hægt sé að fara inn í samninga með þessum hætti? Bíddu við. Var ekki líka verðbættur samningur við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf.? Er hann ekki líka verðbættur? Eða hvernig er verðtryggingin inni í honum? Ég er með skjal fyrir framan mig þar sem minnst er á hann. Ég er hér með, frú forseti, þingskjal sem heitir Skýrsla forsætisráðherra um samninga, viljayfirlýsingar og fyrirheit ráðherra samkvæmt beiðni. Lögð fyrir 135. löggjafarþing 2007–2008.

Þar er greint frá fjölda samninga sem ríkisvaldið hefur gert í þeim kosningavíxli eða kosningasamningum. En það eru til einkavæðingarsamningar. Af hverju er ekki farið inn í samninginn um Sóltún? Er hann verðbættur? Ég vil spyrja um það. Er farið inn í hann? Ekki það að ég mæli með því að samningar séu brotnir, hversu bölvaðir sem þeir eru og vitlausir. En verið er að fara inn í einstaka samninga.

Ég spurði að því í fjárlaganefnd hvernig væri með samninga í einkavæðingarkerfi heilbrigðisþjónustunnar þar sem boðin er út heilsugæsla, læknisverk o.s.frv. Jú. Það kom fram. Þeir eru verðbættir í bak og fyrir. Er það allt í lagi? Er allt í lagi að halda þeim samningum inni? Kannski eru hærri upphæðir í verðbótum í öllum þeim samningum en verið er að ná út úr samningum við bændur. Þegar ríkisstjórnin fer út í eitthvað af þessu tagi er athyglisvert að velta slíku fyrir sér, af hverju þessi samningur er tekinn út. Þetta er kjarasamningur bænda. Þetta er kjarasamningur við landbúnaðinn. Segir maður einhliða upp kjarasamningi?

Athyglisvert er í þessu samhengi, frú forseti, að þegar litið er á fjárframlög landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins, sem ég kem svo að seinna í ræðu um fjárlög og fjáraukalög, að þar eru, að mig minnir, á árinu 2007 eða 2008, um 70 millj. kr. eða nokkrir tugir millj. kr. til innleiðingar á matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Á þessu ári er áfram fjármagn til að innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Að vísu er hún lækkuð en áfram eru nokkrir tugir milljóna króna og á næsta ári, 2009, er gert ráð fyrir nokkrum tugum milljóna króna í innleiðingu á matvælalöggjöf Evrópusambandsins sem byggir á lögum sem Alþingi hefur ekki einu sinni samþykkt og mun vonandi aldrei samþykkja.

Ástæða þykir til að nota nokkra tugi milljóna króna til að innleiða löggjöf, sem mun ganga mjög nærri íslenskum landbúnaði og íslensku fæðuöryggi og setja það í óvissu og uppnám. Hægt er að halda þeim peningum inni en ganga á samninginn sjálfan við bændur. Það er ekki bara upphæðin. Þetta sýnir innræti og afstöðu ríkisstjórnarinnar til íslensks landbúnaðar.

Ég geri þetta sérstaklega að umræðuefni hér, frú forseti, vegna þess að við eigum svo mikið undir — ekki hvað síst núna — öflugum vexti og viðgangi og trausti um landbúnaðinn að okkur ber frekar að styrkja grunnstoðir hans og fæðuframleiðsluna í landinu, matvælavinnsluna. En þá kemur ríkisstjórnin og vill skera niður tekjur bænda, sem eru líklega innan við 4.000 talsins, um samtals 800 millj. kr. og taka þar með þá áhættu að hleypa matvælaverði upp, draga úr og skerða fæðuöryggi íslensks samfélags og auk þess afkomu bænda. En flytur á móti í fjárlagafrumvarpinu tillögur um fjárveitingar til að heimila innflutning á hráu kjöti til að undirgangast Evrópusambandstilskipanirnar.

Sama er hvar að er komið. Ef eitthvað snertir Evrópusambandið liggur öll ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hundflöt. Sumir segja að þetta séu áhrif Samfylkingarinnar í ríkisstjórn en mér finnst ansi aumt ef hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem tilheyrir Sjálfstæðisflokknum, það að ég best veit, leggist flatur fyrir Samfylkingunni. Ætli hann þurfi nokkra hjálp til þess í þessu máli? Því hann hefur einmitt lýst því yfir að hans helsta áhugamál sé að opna fyrir innflutning á hráu kjöti frá Evrópusambandinu og setja íslenskan landbúnað í uppnám. Hann flytur svo tillögur hér til að styrkja ríkissjóð vegna bankahrunsins, til að greiða fyrir ferðakostnað ráðherranna til útlanda. Til Norðurlandanna og Bandaríkjanna til að telja alheiminum trú um að allt væri í mjög góðu lagi í íslenskum bankaheimi. Þetta verða íslenskir bændur nú að taka á sig með samningsrofum af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Bændur verða að greiða fyrir veisluna hjá fjármálagúrúunum sem héldu stóra afmælisveislu og buðu frægustu tónlistarmönnum heim í sérþotu til að syngja eitt lag. Elton John, góður söngvari. En þetta verða bændur að borga. Nú er reikningurinn sendur á bændur í landinu. Reikningurinn vegna Eltons Johns og reikningurinn vegna þotnanna, en einn af þessum jöfrum sem nú er búinn að setja landið á slig kvartaði undan því að það rigndi á þær á Keflavíkurflugvelli. Það þyrfti að byggja yfir þær skýli. Það væri svo vont að láta rigna á þær. Já. Auðvitað er vont að láta rigna á þotur. (Gripið fram í: Þær voru á hrakhólum.) Þær voru á hrakhólum. Kostnaðinn við þetta verða nú bændur að borga. Reikningurinn er sendur á þá, með samningsrofi eins og hér er gert.

Bændur hafa verið seinþreyttir til vandræða og hafa hingað til staðið við sitt og lagt sitt fram þegar um er beðið. En ég veit að þeir kunna því illa þegar farið er aftan að þeim með þessum hætti. Farið var aftan að þeim í matvælalöggjöfinni með því að vilja keyra hér á innflutning á hráu kjöti. Allt til að þjónka Evrópusambandinu. Nú er farið aftan að þeim með því að rjúfa við þá samning, sem allir voru sammála um að mætti ekki þrengri vera til að halda hér uppi fæðuöryggi og öflugum landbúnaði.

Frú forseti. Framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart bændum í landinu birtist í þessum bandormi sem bændur lögðu sitt af mörkum til að útrýma á sínum tíma. Þeir útrýmdu sullaveikisbandorminum í landinu og náðu þar góðum árangri. Nú er hann keyrður hér inn af hálfu ríkisstjórnarinnar í bandormsfrumvarpi með samningsrofi á (Forseti hringir.) bændum. Ég harma það og mótmæli því mjög sterklega. (Forseti hringir.)