136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. formanni viðskiptanefndar, Álfheiði Ingadóttur, fyrir að kveða upp úr um það að viðskiptanefnd þingsins muni fá aðgang að þeim athugasemdum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom á framfæri við forsætisráðuneytið. Það er rétt sem hv. þingmaður benti á í máli sínu áðan að við alþingismenn höfum lesið um margt í tengslum við samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á vettvangi Dagblaðsins. Það er gjörsamlega óásættanlegt, hæstv. forseti, að þingið sé meðhöndlað með þeim hætti af hálfu framkvæmdarvaldsins að við fáum ekki aðgengi að mikilvægum trúnaðarskjölum. Það eru fyrst og síðast alþingismenn sem bera ábyrgð á þeirri löggjöf sem héðan er afgreidd og ég tek því undir það með hv. formanni, og reyndar lagði ég fram þá beiðni á fundi nefndarinnar í morgun, að nefndin sjálf, ef við fengjum ekki upplýsingar frá forsætisráðuneytinu, mundi leita eftir þessum upplýsingum. Ég tel mjög mikilvægt að við fáum aðgang að þessum upplýsingum í ljósi þess að við erum að tala um löggjöf sem snertir grundvallarstofnun í þjóðfélagi okkar, Seðlabanka Íslands.

Við höfum talað fyrir því, framsóknarmenn, að við viljum vanda alla vinnu við frágang á þessu máli og þess vegna verðum við að fá allar upplýsingar upp á borðið hvað þessi mál áhrærir. Ég fagna því sérstaklega enn og aftur að hv. formaður nefndarinnar ætlar að beita sér fyrir því enda hef ég talað fyrir því á þingi, og hef haldið að almenn samstaða væri um það meðal þingmanna, að við eigum að hefja Alþingi Íslendinga á ný til vegs og virðingar. Það er þá frumskilyrði að þingið fái aðgengi að mikilvægum upplýsingum sem snerta afgreiðslu mikilvægra þingmála.