136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þessi síðustu orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar eru athyglisverð vegna þess að þar er hann heyrist mér helst að vitna í sjálfan sig. Það sem hann segir að hafi komið fram á fundi nefndarinnar var eitthvað sem kom fram í samtali hans við formann nefndarinnar, Álfheiði Ingadóttur, og hvorugt vissi nokkuð um málið. Þetta eru því bara einhverjar getgátur.

Það er reyndar mjög athyglisvert hvað þetta mál virðist koma við viðkvæman streng hjá stjórnarliðum í umræðunni. Það er alveg greinilegt að einhver taugaveiklun grípur um sig þegar þetta mál er til umræðu og þegar kallað er eftir þessum upplýsingum. Ég veit ekki hvað stendur í þessum gögnum (ÁI: Veistu það ekki?) en ég tel hins vegar að leyndin geri það að verkum að það sé full ástæða til þess að kalla eftir því að þær upplýsingar komi fram.

Hér var sagt og gerðar athugasemdir við þau orð mín að ég teldi óskiljanlegt að leynd hvíldi yfir þessum upplýsingum. Ég endurtek það. Ég tel það óskiljanlegt sérstaklega í ljósi tveggja hluta. Annars vegar þess að málið hefur verið í meðförum Alþingis frá því fyrir helgi. Forsætisráðherrann lagði það fram á þingi á fimmtudaginn. Athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins koma til forsætisráðuneytisins um helgina og eiga þar af leiðandi auðvitað erindi til þingsins en ekki til ráðuneytisins. Því hefði auðvitað verið eðlilegast að forsætisráðuneytið sendi þetta þegar áfram til þingsins. (LB: Hvenær verður prófkjörið?)

[Hlátrasköll í þingsal.] Hins vegar, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem greinilega er mjög viðkvæmur út af þessu máli, mjög viðkvæmur, (Gripið fram í.) þá er það þannig að í þeim svörum sem gefin hafa verið, m.a. í fréttatilkynningum frá forsætisráðuneytinu í gær, er látið í veðri vaka að hér sé aðeins um minni háttar tæknilegar athugasemdir að ræða. (LB: Veist þú meira?)

Ég spyr: Hvað í veröldinni kemur í veg fyrir að tæknilegar athugasemdir komi til þeirrar þingnefndar sem (Forseti hringir.) fjallar um málið? (Gripið fram í.)