136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[15:59]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel vel fara á því að þessi mikilvægu mál séu rædd hér á hv. Alþingi á sama tíma og búnaðarþing er að störfum.

Ég get sagt eins og fleiri hv. þingmenn að engin einföld lausn er til á þeim vanda sem við er að etja. Ég vil þó að það komi hér fram að það var sérstaklega ánægjulegt í gær að vera viðstaddur setningu búnaðarþings og upplifa þá bjartsýni sem þar sveif yfir vötnum. Yfirskrift búnaðarþings er: Treystum á landbúnaðinn.

Það er enginn vafi á því að þeir erfiðleikar sem þjóðin gengur í gegnum núna hafa gert það að verkum að meiri samstaða er um það að landbúnaður sé mikilvægur og að hann beri að efla frekar en hitt. En eins og kom fram hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þá eru vandamálin einkum þau að aðföng hafa hækkað mikið, skuldsetning er gríðarleg og lán hafa hækkað meira en orð ná yfir. Það á ekki bara við landbúnaðinn. Það á náttúrlega við allan þann rekstur sem er í landinu og þar með talinn rekstur heimilanna. Við stöndum frammi fyrir sama vanda í landbúnaði og í öðrum greinum hvað það varðar.

Auðvitað verðum við að trúa því að hæstv. ráðherra sé alltaf að leita leiða til þess að koma til móts við þessa erfiðleika en það hefur komið fram hjá honum að sú skerðing sem t.d. varð á niðurgreiðslum á raforkudreifingu til garðyrkjubænda mun standa. Eins mun ekki verða gripið til ráðstafana til þess að breyta skerðingu vegna (Forseti hringir.) búvörusamnings. Það er því lítið um góðar fréttir ef maður getur sagt sem svo. Ég tel eftir sem áður að hæstv. ráðherra sé að leggja sig fram.