136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[16:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um visthönnun vöru sem notar orku. Þetta frumvarp er að finna á þskj. 575 og er 335. mál. Það byggir á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 6. júlí 2005 og tilgangur þess er að innleiða ákvæði tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Þegar frumvarpið var búið í núverandi form var litið til laga nr. 51/2000, um orkunýtnikröfur, sömuleiðis laga nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. Sömuleiðis var skyggnst um gættir í Danmörku og Svíþjóð og skoðað með hvaða hætti þeir ágætu grannar okkar hefðu slegið í frumvarpsgerð við innleiðingu þessarar gerðar.

Frumvarpið er í 14 greinum og markmið þess er að stuðla að þróun og aukinni notkun vöru sem hægt er að skilgreina sem orkunýtna með því að innleiða það sem við köllusm visthönnun á fyrstu stigum vöruþróunar. Tilgangur frumvarpsins og hinnar upphaflegu tilskipunar Evrópuþingsins er að sjálfsögðu að draga úr orkunotkun og þar með draga úr áhrifum á umhverfið. Frumvarpinu er líka ætlað að tryggja frjálst flæði vöru af þessum toga um EES-svæðið. Þetta frumvarp má segja að taki til hvers konar vöru sem notar orku, þó ekki farartækja eða tækja sem nú þegar hafa verið tekin í notkun.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt fram vinnuáætlun fyrir árin 2009–2011 sem hefur að geyma það sem kalla má leiðbeinandi lista yfir vörur sem eiga að hafa forgang við setningu ítarlegra reglna um orkunýtni o.fl. Bara til að gefa þingheimi hugmynd um hvers konar vörur við erum að tala um get ég þess að meðal þessa varnings eru vitaskuld margvíslegir hlutir og vörur sem byggja á talsverðri orkunotkun, eins og loftræsikerfi, kynditæki, varmadælur, matreiðslutæki ýmiss konar, eins og örbylgjuofnar og kaffivélar, iðnaðar- og rannsóknarofnar, net-, gagnavinnslu- og gagnageymslubúnaður, kæli- og frystibúnaður, mynddisk- og myndbandstæki, straumbreytar og vatnsrennslisbúnaður.

Með þessu frumvarpi er lagt til að eingöngu verði heimilt að setja vörur á markað hér á landi sem uppfylla hinar sameiginlegu EES-reglur um orkunýtni og álag á umhverfið. Það eru líka ákvæði í frumvarpinu sem eiga að tryggja að óheimilt sé að banna markaðssetningu slíkrar vöru.

Ef vara telst uppfylla orkunýtnikröfur annars EES-lands verður hún sömuleiðis talin uppfylla orkunýtnikröfur hér á landi. Þær vörur sem uppfylla skilyrði laganna og reglna sem settar verða á grundvelli þeirra eiga að bera CE-samræmismerkingu, en það er gild staðfesting á því að svo sé í tilviki viðkomandi varnings. Frumvarpið felur því fyrst og fremst í sér reglur um grundvöll orkunýtnikrafna, markaðssetningu en sömuleiðis um ábyrgð og upplýsingaskyldu, bæði framleiðanda og seljanda, en ekki eiginlegar efnisreglur um orkunýtnikröfur. Hvað varðar sjálfar kröfurnar sem gerðar verða um nýtni orkunnar er með frumvarpinu lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að setja viðhlítandi ákvæði um slíkar kröfur í reglugerðum. Ástæða þessa fyrirkomulags er í meginatriðum að áðurnefnd tilskipun ESB setur fram helstu efnisþættina sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er síðan ætlað að útfæra nánar með sérstökum gerðum varðandi einstaka vöruflokka. Við setningu þessara gerða nýtur framkvæmdastjórnin aðstoðar sérstakrar nefndar sem er skipuð sérfræðingum EES-ríkjanna. Hér er eingöngu um það að ræða að móta verði tæknilegar reglur sem gert er ráð fyrir að ráðherrann innleiði síðan með því að setja reglugerð. Menn telja þetta hentugustu leiðina til að setja tæknilegar reglur en að óþarft sé að innleiða þær með sérstökum lögum. Það er vert að taka fram að þetta er sama fyrirkomulag og var viðhaft í eldri lögum um sama efni frá árinu 2000, nr. 51/2000, og fjölluðu um orkunýtnikröfur sem falla úr gildi ef frumvarpið verður að lögum.

Tilskipunin og innleiðing hennar hefur fyrst og fremst áhrif á framleiðendur sem starfa innan EES-svæðisins. Hér á landi verður að segjast að næstum engir framleiðendur eru að þeim vörum sem tilskipunin nær til og þess vegna mun frumvarpið hafa ákaflega lítil áhrif á framleiðendur hér á landi. Hins vegar er mikilvægt að sömu reglur gildi hér og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu þannig að ekki sé hægt að flytja hingað til lands vörur sem ekki má markaðssetja í öðrum EES-ríkjum.

Frumvarpið getur þess vegna haft nokkra þýðingu fyrir innflytjendur vöru sem notar orku þegar framleiðandinn er ekki staðsettur á EES-svæðinu og varan kemur því í fyrsta skipti inn á EES-svæðið. Af sjálfu leiðir þá, herra forseti, að frumvarpið hefur töluverða þýðingu fyrir neytendur, mér liggur við að segja að það hafi mikla þýðingu fyrir neytendur, vegna þess að með því er stefnt að því að framleiðanda eða innflytjanda verði gert skylt að upplýsa neytandann um ákveðin atriði sem lúta að orkunotkun og orkumerkingum. Neytandinn getur þá gert sér grein fyrir því hvaða áhrif varan hefur á umhverfið. Það er óhætt að segja að frumvarpið stuðlar að bættri orkunýtni. Það má kannski segja að frumvarpinu sé ekki síst ætlað að stuðla að vakningu vitundar meðal borgaranna um náttúrulegt umhverfi þeirra og hvernig best sé að varðveita það og viðhalda því.

Hvað varðar síðan bein áhrif frumvarpsins á stjórnsýsluna felast þau að mestu leyti í því að frumvarpið gerir ráð fyrir því að Neytendastofu verði falin umsjón og eftirfylgni við reglur sem settar verða.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frumvarpið en legg til að þegar þessari umræðu lýkur verði því vísað til 2. umr. og sömuleiðis til hv. iðnaðarnefndar til faglegrar umfjöllunar.