136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt frumvarp og ég vil þakka fyrir framlagningu þess. En mig langar til að beina fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra um tvennt. Það er í fyrsta lagi: Kemur þetta frumvarp einhvern veginn í veg fyrir krosseignarhald sem hefur skaðað mjög mikið, t.d. það eignarhald sem var í kross milli Kaupþings og Exista? Nú getur maður nefnt það því bæði þau félög eru komin af verðbréfamarkaði. Það var ekki hægt að nefna þetta áður.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um framkvæmd laga um opinber hlutafélög og hvort bankarnir séu ekki allir opinber hlutafélög. Ef svo er hvort þá eigi ekki að vera kynjajafnrétti í stjórn þeirra og hvort einn bankinn, Kaupþing, megi hafa fimm konur í stjórn. Einnig hvort aðalfundir félaganna eigi ekki að vera opnir kjörnum fulltrúum og fréttamönnum þannig að þær ákvarðanir aðalfundar sem gerðar hafa verið séu því ólöglegar. Ég spyr líka hvort framkvæmd laga um opinber hlutafélög sé yfirleitt í lagi.

Þá vil ég nefna t.d. Þróunarfélag Keflavíkur og fjöldann allan af öðrum hlutafélögum sem ríki og sveitarfélög eiga alfarið og eru þar með opinber hlutafélög og eiga að gæta kynjajafnréttis o.s.frv. Þetta langar mig til að spyrja um því hér er verið að setja enn ein lögin og það er spurningin ef framkvæmdin er ekki betri en þetta á opinberum félögum sem ríkið á jú sjálft, verður þetta eitthvað betra þótt menn setji eitthvað í lög?