136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

uppsagnir þyrluflugmanna Landhelgisgæslunnar.

[10:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. dómsmálaráðherra taki því vel að skoða þann möguleika að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til Varnarmálastofnunar, sem eru á hálfan annan milljarð, verði færðir yfir til Landhelgisgæslunnar til að styrkja innviði hennar. Sá rekstrarvandi sem Landhelgisgæslan á í nemur 500–600 millj. kr.

Það er rétt hjá hæstv. dómsmálaráðherra að það þarf að hagræða í ríkisrekstri en það má ekki gera það þannig að öryggi sé hætt og við erum að tala um að Landhelgisgæslunni er líka ætlað að sinna löggæslu og eftirliti á hafi úti og sjúkraflutningum. Það er í rauninni verið að stofna öryggi allra þeirra sem á sjó eru í hættu. Það má ekki skerða öryggið og þrátt fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra hafi sagt að það ætti ekki að gera þá gera þessar breytingar það samt að verkum að ekki verður hægt að halda úti tvöfaldri vakt þyrlna sem þýðir, og ég hef upplýsingar um það innan úr Landhelgisgæslunni, (Forseti hringir.) að það verður erfitt eða ómögulegt að halda úti eftirliti fyrir utan 20 mílurnar. Það er bara stóralvarlegt mál varðandi öryggi sæfarenda.