136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

lánveitingar bankanna til eigenda, málþóf o.fl.

[13:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. 1. febrúar breyttist stjórnin í landinu. Þá varð allt í einu eins og stjórnarandstaðan mætti ekki segja neitt. [Hlátur í þingsal.] Að stjórnarandstaðan mætti ekki koma og gagnrýna mál málefnalega. Einn hv. þingmaður sagði: Í gær voru menn að rugla og þvaðra. Mér er svolítið misboðið sem þingmanni að mega ekki af fá að tjá mig málefnalega um mál sem ég tel vera merkileg og brýn.

Ég varð fyrir vonbrigðum þegar hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að við hefðum komið hingað í gær, við sjálfstæðismenn, með málþóf í farteskinu. Ég ber meiri virðingu fyrir málfrelsi þingmanna en svo að tala um að við höfum verið með málþóf í gær. Ég horfi hér á hv. þm. Mörð Árnason. Ekki datt mér í hug þegar við vorum hér fram eftir mörgum nóttum, fram til fjögur og fimm margar nætur og mörg þing í röð, og ræddum um málefni Ríkisútvarpsins, að hv. þingmaður væri að beita málþófi. En það er greinilegt að hann er búinn að viðurkenna það. (Gripið fram í.)

Meginmálið er það, herra forseti, að í gær átti sé stað málefnaleg umræða og innleggið frá hv. þm. Pétri H. Blöndal var breytingartillaga sem lögð var fram við 3. umr. Við ræddum hana málefnalega. Við höfðum ákveðnar skoðanir á málinu og við höfðum ákveðna fyrirvara þó að við munum styðja málið. Við höfum ákveðna fyrirvara af því við erum hrædd við að áhlaup verði gert á lífeyrissjóðina vegna séreignarsparnaðarins. Við vildum draga það fram. Ég man ekki til þess hafa séð nokkrum þingmanni Samfylkingarinnar bregða hér fyrir í gærkvöldi þegar við vorum að ræða þetta mál. Aftur á móti var hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hér og fylgdi málum eftir snöfurmannlega en (Gripið fram í.) aðrir þingmenn tóku ekki þátt í málinu (Forseti hringir.) fram eftir kvöldi.