136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

Breiðavíkurmálið.

[10:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir ári síðan, í mars í þessum sal, ræddum við um skýrslu um Breiðavíkurmálin og ég held að það blandist engum hugur um að við vorum öll slegin óhug af frásögnum fórnarlambanna þar af því sem þar fór fram. Hér var unnin góð skýrsla fyrir þingið um þau efni og komist að þeirri niðurstöðu að þar hafi verið brotin lög, ekki bara núgildandi heldur þágildandi, um vistun barna og ungmenna þar, um meðferð þeirra, og þar hafi Alþingi brugðist skyldu sinni. Hér báðust einstaka þingmenn afsökunar fyrir sig og sína og hæstv. forsætisráðherra viðurkenndi ýmis mistök sem orðið hefðu en jafnframt voru boðuð mál inn í þingið í framhaldinu og frekari aðgerðir.

Ég vil þess vegna nota tækifærið og spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji ástæðu til þess að biðja fórnarlömbin í Breiðavíkurmálunum formlega afsökunar fyrir hönd íslenska ríkisins, en ekki síður hvað líði eftirmálum þeirrar skýrslu sem hér var, viðræðum um lúkningu þessara mála, bótagreiðslur og annað slíkt. Þó að þetta verði auðvitað aldrei bætt með fé þá er það mikilvægt að mál sem eiga athygli okkar svo mikla um skamma stund eins og þetta mál gerði að við gleymum því ekki heldur sé því fylgt eftir og reynt að ljúka fyrir og bæta sem best við getum það sár, sem ég held að það hafi ótvírætt verið, á þjóðarsálinni.