136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[13:46]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af því sem kom fram hjá síðasta ræðumanni er það auðvitað ekkert ástand að þurfa stöðugt að vera, eins og hann segir, að setja ný lög til þess að auka á höftin gagnvart öðrum þjóðum. Staðan eins og hún er hjá okkur Íslendingum í dag er náttúrlega algjörlega óviðunandi. Eftir að gjaldeyrishaftalögin voru sett og jafnvel löngu áður er íslensk þjóð rúin trausti. Fyrir utan það að umfang okkar á erlendum markaði er stórlega skert er náttúrlega útilokað að erlendir fjárfestar komi til landsins í því skyni að fjárfesta. Þetta er allt í boði íslensku krónunnar og íslenskrar einangrunarstefnu vil ég segja. Það er ekki lengur að það séu bara Vinstri grænir sem reki slík einangrunarstefnu, það er ekki síður Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta er ástandið sem blasir við og þetta hlýtur hv. málshefjandi að vita.

Það sem er alvarlegt og er í raun mál sem ég hef beðið um að verði rætt í hv. utanríkismálanefnd og er brot okkar á EES-samningnum. Hversu mikið svigrúm höfum við gagnvart Evrópusambandinu hvað varðar þann samning? Það er því af mörgu að taka, hæstv. forseti.

Mér sýnist við hjakka of mikið í sama farinu og þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson biður um þessa umræðu, nýkominn af landsfundi Sjálfstæðisflokksins, vakna ýmsar spurningar, ekki síst í framhaldi af því að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti enga peningamálastefnu á fundi sínum. Hinum stóra og fjölmennasta fundi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nokkru sinni haldið lauk án þess að mótuð væri peningamálastefna.