137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum hér efnahagshorfur fram undan skulum við horfa sérstaklega til stöðu landsbyggðarinnar í því samhengi. Þar hefur víða verið neikvæður hagvöxtur í fjölda ára og mikil varnarbarátta háð. Þegar byggingarframkvæmdir stóðu sem hæst á höfuðborgarsvæðinu allt fram á síðasta ár leit út fyrir að verið væri að undirbúa áframhaldandi stórbúferlaflutninga af landsbyggðinni, svo blint var ráðist í byggingu íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæðis langt umfram þörf.

Það verður líka að segja eins og er að bankar og viðkomandi sveitarfélög sýndu litla ábyrgð með aðkomu sinni í því offramboði húsnæðis sem allt stefndi í. Blind græðgi og fyrirhyggjuleysi rak opinbera jafnt sem einkaaðila áfram á þessari vegferð, enda er komið á daginn að fjölda lóða hefur verið skilað, húsnæði stendur autt og ekki hefði þurft fjármálakreppu til að svona færi.

Eftir á að hyggja má það teljast lán í óláni hversu lítil veðhæfni eigna er víða á landsbyggðinni ef horft er til þess hve mikil ásókn bankastofnana var á síðustu árum í að bjóða fólki lán með ýmsum gylliboðum sem helltu þar með olíu á eldinn í einkaneyslunni. Skilja mátti að aldrei kæmi að skuldadögunum en annað átti eftir að koma í ljós. Yfirskuldsetning margra heimila og fyrirtækja er staðreynd sem bætist á aðrar efnahagshremmingar landsmanna.

Við sem byggjum landsbyggðina höfum horft upp á verðlækkun eigna okkar og atvinnuleysi sem hefur verið falið vegna flutninga fólks sem misst hefur vinnuna og flust þangað sem þenslan hefur ríkt. Nú þegar við þjóðinni blasir niðurskurður og aukin skattlagning svo reisa megi efnahag þjóðarinnar við að nýju eftir kaldar krumlur hins kapítalíska markaðskerfis verður að taka mið af því þegar byrðunum verður dreift að hlífa þeim sem minnst mega sín og því fólki sem lægst launin hefur og taka til greina hvaða efnahagsástand landsbyggðin hefur mátt búa við undanfarin ár.

Nú skulum við líta til landsbyggðarinnar sem stórkostlegs tækifæris til sóknar og gjaldeyrissköpunar. Þar höfum við mikla möguleika í sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu, greinum sem verður að skjóta styrkari stoðum undir. Það verður að verja þau mikilvægu störf sem þar eru unnin og skapa þjóðinni mikinn gjaldeyri sem allt snýst um á þessum síðustu og verstu tímum. Íslendingar virðast vera vel meðvitaðir um nauðsyn þess að spara gjaldeyri og hyggjast ferðast mikið innan lands í sumar sem er mjög mikilvægt og ánægjulegt fyrir ferðaþjónustu í landinu. Í öllum þeim erfiðleikum sem þjóðin stendur frammi fyrir verðum við að horfa til þess hve lífvænlegt land Ísland er í raun með allan sinn mannauð, orkulindir og gjöful fiskimið, öfluga matvælaframleiðslu, hátækniiðnað, góða heilbrigðisþjónustu og hátt menntunarstig.

Við höfum alla burði til að koma okkur í gegnum þessa kreppu með þeim dugnaði og elju sem þjóð okkar býr yfir, en það skiptir líka öllu máli að ganga ekki það bratt fram í niðurskurði á innviðum samfélagsins að næsta kynslóð þurfi að endurreisa velferðarkerfið. Þó svo að við viljum ekki láta komandi kynslóðir taka við skuldaklöfum megum við ekki brjóta niður þá velferðar- og grunnþjónustu sem byggst hefur upp á löngum tíma.

Landsbyggðin hefur mikla möguleika á að sækja fram til atvinnusköpunar og verður þar að horfa til styrkingar innviða samfélaganna. Þar skipta bættar samgöngur miklu máli ásamt afhendingaröryggi í raforku og fjarskiptum. Fjölbreyttir menntunarmöguleikar og öflug menningarstarfsemi er landsbyggðinni nauðsynlegt í allri uppbyggingu.

Ég tel landsbyggðina vannýtta auðlind sem við eigum að nýta sem best til sóknar, hvort sem um ræðir auðlindir okkar til lands og sjávar eða hugvit sem virkjað er til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Þess vegna má það aldrei vera svo að við skerum það mikið niður í grunnþjónustu samfélagsins og í þeim atvinnugreinum sem við ætlum okkur að nýta sem best til að vinna okkur í gegnum þessa erfiðleika að við étum okkur niður í ekki neitt.

Það má víða skera niður í bruðli og óhófi sem viðgengist hefur jafnt í opinbera geiranum sem einkageiranum. En munum að stór hluti landsmanna og landsbyggðarinnar hefur ekki möguleika á að spara meira. Þar er botninum náð fyrir löngu síðan.