137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:42]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég var tiltölulega sáttur við hæstv. fjármálaráðherra að því leyti til að ég tel að hann tali hér af hreinskilni, hann trúi því sem hann segir og sé einlægur í vilja sínum til að alla vega leita lausna og það er þó byrjun. Ég vona að okkur gefist frekari tækifæri til að fara yfir þessi mál með hæstv. ráðherra.

Það næst ekki að fara yfir og leiðrétta eitt og annað sem kom fram í ræðu hans, ég vil því nota tímann til að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar og hún er sú: Þykir ráðherranum eðlilegt að ríkið eða nýju bankarnir kaupi til að mynda fasteignalánasöfn gömlu bankanna á miklum mun hærra verði en fengist fyrir þessi lánasöfn ef bankarnir yrðu settir í þrot og þau yrðu einfaldlega boðin upp? Ef ráðherrann telur svo ekki vera og gerir ráð fyrir að fyrir þessi söfn fengist lág upphæð, segjum 25%, er þá ekki eðlilegt að það sé að einhverju leyti látið ganga áfram til þeirra sem skulda?