138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

47. mál
[14:56]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu til þingsályktunar, tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Ég vil í þessu sambandi benda sérstaklega á nokkuð sem heitir Evrópusáttmálinn um jafna stöðu karla og kvenna, útgefinn af Evrópusamtökum sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið að sér að láta þýða hann, innleiða og kynna sveitarfélögum í landinu. Jafnréttisstofu hefur verið falið að halda utan um þetta verkefni og hefur til þess tæki og tól en þarf sannarlega til þess fjárveitingar. Þessi sáttmáli, sem er ítarlegur, hefur núna verið undirritaður af milli 600 og 700 sveitarfélögum um alla Evrópu en undirritun sáttmálans felur í sér pólitíska yfirlýsingu um að viðkomandi sveitarfélag muni haga jafnréttisstarfi sínu í samræmi við ákvæði sáttmálans. Þar er lögð rík áhersla á að jöfn þátttaka kvenna og karla í ákvarðanatöku er forsenda lýðræðislegra þjóðfélags.

Nú þegar hafa sex íslensk sveitarfélög undirritað þennan sáttmála og ég held að þar sé komið afar gott tæki sem sveitarfélögin í landinu geta nú tekið upp á sína arma með aðstoð Jafnréttisstofu.