138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

bréfaskipti milli forsætisráðherra Íslands, Bretlands og Hollands.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svolítið freistandi þegar dregið er aftur og aftur fram að við séum að leyna gögnum (Gripið fram í.) og komum ekki fram með bréf og annað sem kallað er eftir. Hvað tók það mörg ár að fá upplýsingar, þótt ítrekað hafi verið kallað eftir þeim, um einkavæðingu á bönkunum og þær reglur og hugmyndir sem þar giltu? (Gripið fram í.) Það var kallað mjög oft eftir þeim og við fengum þær aldrei fram (Gripið fram í.) og það kom í minn hlut sem forsætisráðherra að birta gögn að því er varðar einkavæðingu bankanna, (Gripið fram í.) svo því sé haldið til haga. (Gripið fram í.) Varðandi samskipti annarra ráðherra við ráðherra í þessum löndum hafa þau verið töluvert mikil. Það hefur komið fram bæði í bréfaskiptum og í samtölum við þessa ráðherra. Og af því að verið er að tala um að við höldum ekki uppi málstað Íslands og oft er svo langt gengið að það jaðrar við landráðabrigsl, er það ansi slæmt þegar við höfum öll lagt okkur fram við að verja hagsmuni Íslendinga en (Forseti hringir.) þurfum aftur og aftur að þola slíkar ásakanir. Það er bara fráleitt (Forseti hringir.) að halda öðru fram en að við höfum varið málstað Íslands. Mér finnst að forsætisnefnd eigi að taka það til skoðunar hve oft ráðherrar í þessari ríkisstjórn hefur verið vændir um að standa sig ekki (Forseti hringir.) og brigslað um landráð. Það hefur oft komið fram í þessum ræðustól við þessa umræðu og ég skora á forseta að fara yfir það hve oft það hefur verið gert. Það er mjög ósanngjarnt. (Gripið fram í.)