138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil ítreka það sem við í stjórnarandstöðu höfum sagt, við erum að sjálfsögðu reiðubúin til þess að gera hlé á þessu máli. Það hefur margoft komið fram að ekkert liggur á, það er enginn þrýstingur af hálfu neinna núna, það hefur m.a. komið fram í máli stjórnarliða. Við leggjum því áherslu á að við getum gert hlé á þessu máli, tekið það inn í nefndina til þess að kanna þær ábendingar sem fram hafa komið og farið í önnur mál sem eru á dagskrá, sem eru fjáraukalög, ráðstafanir í skattamálum, tekjuöflun ríkisins, umhverfis- og auðlindaskattur og tekjuskattur. Hversu ömurleg sem þessi mál eru erum við engu að síður reiðubúin til að fara í þau.

Ég vil spyrja forseta hvort hann muni ekki beita þeirri heimild sem hann hefur til þess að taka sjálfur ákveðið frumkvæði í þessu máli og setja önnur mál ríkisstjórnarinnar á dagskrá. Það er höfðinglega boðið af okkur sjálfstæðismönnum og öðrum í stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) að liðka þannig fyrir málum hjá ríkisstjórninni.