138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla svo sannarlega að ræða um fundarstjórn forseta vegna þess að ég tek undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni um fundinn um sjávarútvegsmálin sem var haldinn í gær. Þetta var alveg með ólíkindum vegna þess að ég sá þingmenn í salnum sem eru meðlimir í þessari nefnd en gátu ekki sinnt því starfi.

En það er önnur nefnd sem þingmenn eiga sæti í, m.a. við hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, Þingvallanefnd, og þess vegna geri ég athugasemd við þetta tækifæri. Þingvallanefnd fundaði einnig í gær þrátt fyrir ítrekuð mótmæli okkar í stjórnarandstöðunni. Þess vegna beini ég þeim vinsamlegu tilmælum til frú forseta hvort ekki sé hægt að koma því þannig við að þessar nefndir sem eru kannski ekki hefðbundnar þingnefndir, eins og fastanefndir þingsins heldur nefndir sem sannarlega eru á vegum þingsins vegna þess að þær eru nær eingöngu skipaðar þingmönnum, fundi ekki á þingfundatímum og sérstaklega ekki meðan þetta mikilvæga mál stendur yfir.