138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og skal reyna að vera líflegri og ákveðnari í ræðustól framvegis. Vegna þessa máls get ég ekki séð annað en að hæstv. ráðherra verði að upplýsa okkur um það eftir að hæstv. ráðherra er búinn að segja að það séu skriflegar sannanir fyrir þessu. Hann verður að koma fram með þessi gögn. Ég verð samt að viðurkenna að ég á mjög erfitt með að skilja málið eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði: Heyrðu, nei, þetta er misskilningur. Þetta tengist ekki.

Af hverju er hæstv. ráðherra svo mikið í mun að það gildi samt? Ég hélt að hæstv. ráðherra hlyti að verða mjög glaður þegar framkvæmdastjóri sjóðsins segir: Heyrðu, nei, slakið á, ekki hafa áhyggjur af þessu. Nei, nei, hæstv. ráðherra segir: Jú, víst. Við ætlum víst að hafa áhyggjur af þessu, þú skalt knýja okkur til að samþykkja Icesave. Þú skalt vera innheimtustofnun fyrir Breta, Hollendinga og Evrópusambandið. Er ekki búið að snúa einhverju við hérna, virðulegi forseti? Gengur þetta upp?

Stóra einstaka málið er að svarið við spurningu hv. þingmanns er mjög einfalt: Við verðum að sjá þessi gögn. Það er alveg kristaltært. Síðan finnst mér líka að hæstv. ráðherra ætti að hætta að biðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að pína okkur til að samþykkja Icesave, og segja bara: Takk fyrir kærlega, þetta eru skýr og góð svör. Hann ætti að nota tækifærið og þakka þeim borgurum sem skrifuðu bréfið sem hæstv. ráðherra hefði átt að gera sjálfur. Síðan eigum við að fara að sinna þeim málum sem er nauðsynlegt að sinna núna — og það er ekki þetta mál.