138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir mjög kjarnyrta og íslenska og þjóðernislega ræðu. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í orðum hans. Hann notar gjarnan líkingamál sem er mjög athyglisvert og minntist m.a. á lampa Aladíns ef ég heyrði rétt og sitt hvað fleira og er ekkert nema gott um það að segja.

Nú hefur þingmaðurinn miklu meiri reynslu en ég á þingi og hefur m.a. verið mikið í erlendu samstarfi og mig langar því að spyrja hann þeirrar spurningar hvort hann muni eftir því á allri sinni löngu tíð sem alþingismaður að viðlíka staða hafi komið upp í samskiptum þjóða að við séum beitt því harðræði sem við erum greinilega beitt í dag af meintum vinaþjóðum okkar, en ég vil nota akkúrat það orð um þetta mál, meintum, hvort hann muni eftir að þvílíkt hafi áður komið upp á þingi. Í framhaldi af því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að stjórnvöld hafi brugðist við með eðlilegum hætti, hvort hann telji að stjórnarflokkarnir hafi haldið uppi nógu kröftugum vörnum fyrir Ísland, m.a. á þeim alþjóðavettvangi þar sem við störfum. Við getum nefnt NATO, Norðurlandasamstarfið, Evrópusamstarfið og ýmislegt annað. Margir hafa velt því upp í ræðustól hvort þar hafi hugsanlega mátt fara kröftugar fram. Mér vitanlega hefur þetta ekki verið rætt opinberlega á fundum NATO eða Norðurlandanna, og það getur svo sem verið rangt hjá mér, nema nú fyrir skömmu og því langar mig til að spyrja hv. þingmann í fyrra andsvari hvort hann muni eftir þvílíkri uppákomu.