138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm.

(Forseti (ÁÞS): Hljóð í þingsalnum. Gefa ræðumanni færi á að tala.)

Árna Johnsen kærlega fyrir hans ræðu. Ég vil taka upp hanskann fyrir Norðmenn, þeir hafa reynst okkur afar vinsamlegir í þessari deilu. Þannig vill til að ég er nýlega komin frá Noregi og er skemmst frá því að segja að þeir vilja allt fyrir okkur gera, en það er ekki vilji til þess hjá íslenskum stjórnvöldum.

Hótanir ESB hljóta að hafa gengið yfir Norðmenn líka og þess vegna kannski kom þessi hótun fram í gegnum Evrópusambandið, þessi beiting varðandi lánveitingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við skulum ekki gleyma því að það eru sósíaldemókratar sem leiða norsku ríkisstjórnina og það eru sósíaldemókratar sem eru við völd á Íslandi. Þeir hafa sameinast um það að fara með báðar þessar þjóðir til Brussel, við skulum ekki gleyma því, og þess vegna er samtakamátturinn svona mikill.

Það sem greinir að ríkisstjórnir Íslands og Noregs er það að Vinstri grænir þarlendir og Framsóknarflokkurinn þarlendur, Centralpartiet, hafa staðið í lappirnar í þessu ríkisstjórnarmunstri og sögðust ekki taka þátt í því nema að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu. Þeir stóðu í lappirnar með það, annað en Vinstri grænir gerðu hér heima þó þeir hefðu það á stefnuskrá sinni. Þeir fóru beint með það inn í ríkisstjórnarsáttmálann að sækja um aðild. Þarna er nú þessi mismunur á ríkisstjórnum þessara landa.

Ég veit að þingmaðurinn hefur starfað mikið í Vestnorræna ráðinu og því vil ég spyrja hann: Finnst honum það ekki heillandi heimssýn og framtíðarsýn fyrir okkur Íslendinga að við tökum höndum saman með Norðmönnum, við Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar og Grænlendingar, og í framtíðinni Kanadamenn, til þess að vernda Norðurslóðir, vernda þá sameiginlegu hagsmuni sem við eigum með þessum þjóðum og gera hér mikið og stórt og öflugt mótvægi við Evrópusambandið þar sem ekki búa nema 6% jarðarbúa?