138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna langar mig að spyrja hvort hann sé sammála því að þar sem í viðaukasamningnum er gert ráð fyrir að því litla sem eftir stendur af fyrirvörum sem Alþingi setti með lögum sé nú stungið inn í fyrirvarana í viðaukasamninginn og þannig séu fyrirvararnir ekki lengur virkir í sjálfstæðum lögum frá Alþingi hafi Bretum og Hollendingum tekist að fá ríkisstjórn Íslands til að gera tillögu að breytingu á lögum frá Alþingi og það séu erlendar ríkisstjórnir sem fái íslenska ríkisstjórn til þess.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að löggjafinn, Alþingi Íslendinga, geti sagt dómsvaldinu fyrir á þann hátt sem gert er í þessu frumvarpi, að Hæstiréttur Íslands eða annað dómstig þurfi að taka mið af niðurstöðum EFTA-dómstólsins í dómsniðurstöðum sínum og hvort löggjafanum sé einfaldlega bært með þrískiptingu valdsins í huga að fara svo að.