138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta voru í sjálfu sér afar skýr svör frá hv. þingmanni. Þetta mál hefur valdið því að skapast hefur gríðarleg gjá í samfélaginu milli þeirra sem telja að ef við samþykkjum ekki þennan hörmungarsamning gerist öll þau ósköp sem Samfylkingin hefur ritað í þennan Rauða þráð, hinna, sem eru að ég held talsvert miklu fleiri, sem telja að þessar byrðar sé ekki hægt að leggja á þjóðina, þær séu bæði ósanngjarnar, óréttlátar og á því liggi lagalegur vafi hvort rétt sé að fara þessa leið.

Innan þingsins hafa einnig myndast mjög andstæðar fylkingar og það virðist ekki neinn reyna að bera klæði á vopnin, hvorki innan þingsins né utan þess. Ég velti því fyrir mér hvort við séum á réttri leið með svona risastórt mál, hvort ekki sé eðlilegra að reyna að leita einhverra sátta. Hv. þingmaður nefndi að hér væru komnar yfir tuttugu og fimm þúsund undirskriftir á indefence.is sem skora á forsetann að staðfesta ekki þetta frumvarp ef til þess kæmi að það yrði samþykkt hér í þinginu, það mundi þá fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvernig menn eiga að geta lifað með að taka slíka ákvörðun veit ég ekki, en er þetta rétta leiðin? Væri ekki gáfulegra að menn mundu reyna að taka þetta mál úr þinginu?

Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því að taka málið hreinlega úr í þinginu, eins og lagt er til af stjórnarandstöðuflokkunum í fréttatilkynningu í dag, og reyna að ná höndum utan um það á nýjan leik, fá til þess aðstoð hugsanlega frá Evrópusambandinu til þess (Forseti hringir.) að leita sátta í málinu, bæði milli okkar og viðsemjenda okkar, Breta og Hollendinga, en ekki síður hérna innan (Forseti hringir.) þings og meðal þjóðarinnar.