138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og við munum auðvitað fjalla um þær athugasemdir sem hann flutti hér í störfum nefndarinnar. Ég vildi inna hv. þingmann eftir því, vegna þess að hann talaði um að aðgerðirnar gætu leitt til samdráttar í eftirspurn, hvort hann meti stöðuna með þeim hætti að við förum í gegnum þær breytingar sem við þurfum að fara í gegnum án þess að draga úr eftirspurn í hagkerfinu og hvort hann telji að við getum farið í gegnum hrunið og alla þá erfiðleika sem því fylgir fyrir heimilin, fyrir atvinnulífið og fyrir ríkissjóð og sveitarfélögin, án þess að draga úr eftirspurn í hagkerfinu. Hvort hann telji ekki að neyslan hafi einfaldlega verið orðin of mikil til þess að tekjuöflun okkar standi undir því og það sé hluti af verkefninu að draga þurfi úr eftirspurninni.

Hins vegar kannski um röð aðgerða. Hér er verið að kynna ýmsar grundvallarákvarðanir í skattamálunum, m.a. að taka á gömlum meinum í skattkerfinu, afnema undanþágur eða afslætti sem verið hafa, afturkalla skattalækkanir o.s.frv. Hv. þingmaður hefur lagt mikla áherslu á skattlagningu séreignarsjóða, sem ég hef talið góðra gjalda vert að skoða, en tel engu að síður nauðsynlegt að ráðast í grundvallaraðgerðir núna, m.a. á grundvelli þess sem við heyrðum frá Göran Persson sem hafði mikla reynslu af svipuðu ástandi í Svíþjóð. Hann lagði að okkur að við ættum að grípa til aðgerða sem fyrst í ferlinu, taka hinar erfiðu ákvarðanir sem fyrst í ferlinu, sem næst hruninu, vegna þess að eftir því sem liði lengra frá hruninu drægi og drægi með hverjum mánuðinum úr skilningnum fyrir aðgerðum. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann telji þetta ekki vera rétta tímapunktinn til að ráðast í (Forseti hringir.) þær erfiðu ákvarðanir sem taka þarf.