138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:13]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að fá það staðfest þvert ofan í það sem kom fram í ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar að málið hefði verið rifið út úr nefnd án samkomulags. Þess var leitað til minni hluta fjárlaganefndar hvort rétt væri að bíða eftir því að fá IFS Greiningar-álitið fyrst inn í nefnd. Það er ágætt að fá það staðfest.

Hitt sem mig langar til að beina til hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar er að hann sagði það í ræðu sinni hér áðan, og það hefur reyndar áður komið fram í máli hans og fleiri þingmanna, að það sé kominn tími til að ráðamenn, ráðherrar og íslensk stjórnvöld fari að gæta hagsmuna Íslands. Jafnvel hafa menn gengið það langt að tala um að íslenskir ráðherrar gæti hagsmuna erlendra ríkja. Ég vil beina því til hv. þingmanns hvort það megi lesa úr orðum hans áðan að hann telji að íslensk stjórnvöld hafi verið að ganga hagsmuna erlendra ríkja fyrst hann telur að þau hafi ekki verið að gæta hagsmuna Íslands.