138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:39]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Fyrri ríkisstjórn gekk til samninga um þetta mál, hún gekk ekki frá samningum, en það voru komin drög að þeim samningum sem lágu fyrir. Það lágu fyrir drög að samkomulagi milli landanna (Gripið fram í.) haustið 2008. (ÁJ: Rangt.) Það skiptir engu máli þótt hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gjammi hér fram í hver af öðrum og neiti því (ÁJ: Rangt.) það lá samt fyrir. Það liggur fyrir í gögnum Alþingis, þeim gögnum sem fjárlaganefnd hefur og þeim gögnum sem alþingismenn allir hafa og eiga að lesa.

Hvað tafirnar hafa kostað okkur? Þær kostuðu okkur það að hafa ekki afgreitt málið fyrr í sumar. Þær kostuðu okkur tafir á endurreisninni. Þær kostuðu okkur það að við búum við hærri vexti heldur en við hefðum þurft. Þær kostuðu okkur það að verðbólga hér er enn þá meiri en hefði orðið hefðum við klárað þetta mál. Þær kostuðu okkur það að lánafyrirgreiðslur til Íslands erlendis frá töfðust. Þetta varð okkur dýrt, hv. þm. Árni Johnsen.