138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:14]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég finn þessum ummælum sem hv. þingmaður les upp af miklum móð ekki stað. Ég er með minnisblað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir framan mig og er margbúinn að biðja hann um að finna þessu stað en það virðist eitthvað vefjast fyrir honum. Ég ætla ekki að eyða orðum á staðhæfingar sem ekki eru studdar beinum tilvitnunum.

Virðulegi forseti. Það sem ég rakti áðan var mjög einfalt, að það (HöskÞ: Svaraðu spurningunni.) er alveg ljóst að við fengum fyrirgreiðslu frá öðrum löndum í trausti þess að gengið væri frá þessum samningi núna. Ef við göngum ekki frá þessum samningum núna og staðfestum (Gripið fram í.) þá ekki fyrir (Gripið fram í.) áramót … Virðulegi forseti, get ég fengið að svara? Ef við staðfestum ekki þennan samning fyrir áramót — það er greinilegt að hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni leiðist að heyra staðreyndir þessa máls — erum við í brigð og svikum gagnvart þeim ríkjum sem eru búin að veita okkur fyrirgreiðslu í trausti (Gripið fram í.) þess að við séum að ljúka afgreiðslunni núna. Við höfum fengið þessa fyrirgreiðslu í trausti þess að við séum að ganga frá þessum samningi. (Gripið fram í.) Ef við göngum ekki frá samningnum erum við sem sagt (Forseti hringir.) að bregðast því trausti sem okkur var sýnt og lánin (Forseti hringir.) sem við höfum þegar fengið eru þá í uppnámi, enda þurfum við væntanlega að reyna að semja við þau ríki sem hafa verið að veita okkur (Forseti hringir.) þessi lán hvernig með skuli fara því það er alveg ljóst að frekari (Forseti hringir.) lánafyrirgreiðsla frá viðkomandi ríkjum er ekki í boði.