138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

úttekt á aflareglu.

356. mál
[15:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að þetta bréf frá hæstv. ráðherra er með þeim vitlausustu bréfum sem hann hefur skrifað og er þó af nógu að taka þar. Að fara að byggja þorskstofninn upp með þeim hætti sem lagt er til hér, við 20% aflareglu, er algjört glapræði að mínu viti. Árið 1983 var þorskstofninn 130.000 tonn, árið 2008 er þorskstofninn orðinn 253.000 tonn. Við erum búin að stækka hrygningarstofn þorsksins um helming. Núna þegar sjórinn er fullur af fiski, þegar allir bátar eru að stoppa, þegar allir eru að hrúgast inn á atvinnuleysisbætur, þá ætla menn að fara að gera svona hluti. Þetta er algjört glapræði, virðulegi forseti.

Ef 40.000 tonnum yrði bætt við þorskkvótann núna mundi þorskstofninn samt stækka og vera árið 2011 kominn í 716.000 tonn úr 702.000 tonnum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að koma íslenskri þjóð út úr þeim vandræðum sem hún er í í dag með svona vinnubrögðum? Það er ekki hægt að mínu viti.

Til þess að árétta það hefði ég talið skynsamlegra fyrir hæstv. ráðherra að spyrja Alþjóðahafrannsóknastofnunina hvernig á því standi (Forseti hringir.) að eftir fjögurra ára tímabil, þegar við ofveiddum ýsuna um 32% á hverju einasta ári, lagði Hafrannsóknastofnun til að ýsustofninn yrði aukinn um 83%. (Forseti hringir.) Svona vinnubrögð þurfum við að skoða, virðulegur forseti.