138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara eitt orð um meinta spillingu í þessu máli. Ég tel að lykilatriðið í málinu sé að nefndur Vilhjálmur Þorsteinsson er einmitt ekki beggja vegna borðsins. Ef hann væri í einhverjum skilningi aðili að þessum samningi iðnaðarráðuneytisins við Verne gæti ég fallist á að hér væri um spillingu að ræða en hann kemur hvergi að því máli. Hann er formaður í nefnd sem fjallar um allt aðra hluti. Ég bið menn um að koma hér upp og rökstyðja með einhverjum hætti í hverju spillingin er fólgin ef maður sem er í nefnd sem fjallar um allt aðra hluti en þennan samning er síðan aðili að fyrirtækinu. Það eru alvarlegar ásakanir þegar menn koma upp og segja að um spillingu sé að ræða og það á sannarlega ekki við í þessu tilviki.

Varðandi hitt atriðið um að Novator geti ekki komið sér undan greiðslu með því að bíða í 10 ár þá vísa ég í nefndarálit meiri hlutans á bls. 4, 2. mgr. þar sem talað er um greiðsluskuldbindingu Novators. Það þýðir á mannamáli að þeir þurfa að borga það sem þeim ber til ríkisins þó að ekki verði neinar arðgreiðslur á tímabilinu og þó að þeir selji ekki sinn hlut í félaginu. Lokasetning 2. mgr., með leyfi forseta:

„Sé ríkisaðstoðin ekki að fullu uppgreidd innan nefnds tímafrests skal Novator þá standa ríkissjóði skil á eftirstöðvunum, óháð arðgreiðslum úr félögunum eða söluverði hlutafjárins.“

Ég vona að þetta sé nægilega skýrt en ég rengi ekki það sem kemur fram í nefndaráliti minni hlutans að rétt sé eftir fulltrúa ráðuneytisins haft en í kjölfarið var hins vegar lögð vinna í að setja fyrir þennan leka eins og kemur fram í meirihlutaáliti nefndarinnar.