138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er á dagskrá frumvarp til laga um stjórnlagaþing, 152. mál, sem er flutt af hæstv. forsætisráðherra, og hefur nú verið hér til allnokkurrar umræðu. Í málinu liggja fyrir breytingartillögur frá meiri hluta allsherjarnefndar og einnig nefndarálit frá meiri hluta allsherjarnefndar og tvö minnihlutaálit frá 1. minni hluta og 2. minni hluta. Ég vil taka það fram strax í upphafi að við fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í allsherjarnefnd stöndum að þeim breytingartillögum og áliti meiri hluta allsherjarnefndar sem liggur fyrir í málinu og styðjum frumvarpið og þær breytingartillögur sem komið hafa fram.

Rík ástæða er til að ræða ítarlega um þetta mál, umgjörðina utan um það og þau grundvallaratriði sem við fjöllum hér um. Við erum að tala um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og hvernig standa eigi að endurskoðun á henni. Lengi hefur farið fram umræða um nauðsyn þess að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og við höfum tekið nokkrar lotur um það hér á Alþingi hvernig standa eigi að því. Við höfum lent í deilum, m.a. á vorþingi 2009 og fyrir þingkosningarnar sem þá fóru fram, um mikilvægar breytingar á stjórnarskránni sem ekki náðust í gegn, aðallega vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn skar sig þar úr þegar aðrir flokkar á þinginu höfðu náð saman um meginatriði í hugsanlegum breytingum á stjórnarskránni. Svo er kallað eftir því í þessari umræðu af hálfu Sjálfstæðisflokksins að það sé breið og mikil samstaða og gott samráð.

Ef þau vinnubrögð eiga að felast í því einu að Sjálfstæðisflokkurinn geti ákveðið hvað komi til álita varðandi breytingar á stjórnarskránni, hvenær og hvernig, kalla ég það ekki samráð stjórnmálaflokkanna. Að sjálfsögðu verður Sjálfstæðisflokkurinn þá líka að koma með uppbyggilegar tillögur á móti um það hvernig hann sér hlutina fyrir sér og hvað hann er tilbúinn til að teygja sig langt í átt að sjónarmiðum annarra, ég tala nú ekki um þegar allir aðrir flokkar hafa, a.m.k. í meginatriðum, staðið saman um hvert beri að stefna. Þetta finnst mér skorta á í umfjöllun sjálfstæðismanna hér í þinginu í tengslum við þetta mál. Ég hvet þá til þess að hugsa aðeins sinn gang hvað þetta snertir og hvort það sé nú endilega heppilegt fyrir þá að gera þetta að þessu stóra deilumáli, eða á ég að segja málþófsmáli, hér á lokadögum þingsins eina ferðina enn.

Nú getum við auðvitað verið ósammála um grundvallarhluti í því hverju eigi að breyta í stjórnarskránni og hvernig. Það er eðlilegt að menn takist á um það. Hér er farin sú leið að leggja til að kosið verði sérstakt stjórnlagaþing til að fara heildstætt yfir stjórnarskrána og gera tillögur um breytingar á henni sem síðan yrðu sendar Alþingi. Er rétt að fara aðeins yfir þá umræðu sem skapast hefur af því tilefni.

Af hverju á stjórnlagaþingið ekki að vera bindandi? Fyrir því er mjög einföld ástæða. Það er ekki hægt að óbreyttri stjórnarskrá. Ef við ætluðum að gera stjórnlagaþingið bindandi yrðum við fyrst að gera breytingar á stjórnarskránni til að svo gæti orðið. Menn geta alveg spurt sig: Af hverju gerir Alþingi ekki þær breytingar? Að óbreyttri stjórnarskrá er ekki unnt að hafa stjórnlagaþingið bindandi. Það var það sem menn vildu gjarnan gera í aðdraganda kosninganna 2009, að gera þær breytingar að hægt væri að kjósa stjórnlagaþing sem afgreiddi með bindandi hætti breytingar á stjórnarskránni. Um það náðist ekki samstaða eins og kunnugt er og því fór sem fór. Því er hér tillaga um að stjórnlagaþingið verði ráðgefandi.

Þá vaknar einnig sú spurning hvort það sé frágangssök í málinu. Úr því stjórnlagaþingið getur ekki orðið bindandi heldur aðeins ráðgefandi eiga menn þá að leggja hendur í skaut og hafast ekkert að? Það er vel hugsanlegt að einhverjir vilji bregðast þannig við en ég er ekki þeirrar skoðunar. Sú spurning vaknar þá líka hvort menn ættu þá að standa öðruvísi að stjórnarskrárbreytingum, t.d. með því að kjósa sérstaka nefnd á vegum Alþingis, ekki endilega nefnd þingmanna heldur sérfróðra manna utan úr bæ, rétt eins og við kusum hér sérstaka rannsóknarnefnd vegna bankahrunsins. Það er sjónarmið í sjálfu sér. Ég tel að eftir alla umræðuna sem fram fór á síðastliðnu ári, um nauðsynlegar endurbætur á stjórnkerfi okkar, stjórnskipan okkar, og um nauðsyn þess að fleiri kæmu að slíkum málum en kjörnir alþingismenn, sé það rétt skref að kjósa til stjórnlagaþings með þeim hætti sem fyrirliggjandi frumvarp gerir ráð fyrir ásamt þeim breytingartillögum sem þar er að finna.

Talsverð umræða hefur orðið um það á vettvangi allsherjarnefndar hvort aðferðafræðin við kosningu á stjórnlagaþing sé rétt, hvort viðhafa hefði átt aðrar aðferðir. Nefndar hafa verið aðferðir eins og einfalt hlutkesti úr þjóðskrá, tiltekinn fjöldi einstaklinga yrði þá dreginn út úr þjóðskrá til setu á stjórnlagaþingi. Það sjónarmið fékk talsverða umræðu og átti í sjálfu sér hljómgrunn í nefndinni. Niðurstaðan varð sú að leggja til að stjórnlagaþing yrði kosið beinni kosningu og þeir sem væru áhugasamir um að taka sæti á því mundu gefa kost á sér í slíkri kosningu og fram færi almenn kosning meðal allra landsmanna til stjórnlagaþingsins.

Það kemur ekki í veg fyrir að fleiri aðilar geti komið að hugmyndavinnu við breytingu á stjórnarskrá, að stjórnlagaþingið geti farið með hugmyndir sínar, og það jafnvel áður en stjórnlagaþingið fer að vinna, út um land og boðað til eins konar þjóðfunda til að leita eftir hugmyndum almennings til að vinna úr og geti þess vegna gert það oftar en einu sinni á starfstímanum, þegar stjórnlagaþingið er lengra komið. Það kemur ekki í veg fyrir að stjórnlagaþingið ráði sér ráðgjafa, beinlínis er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að stjórnlagaþingið geti ráðið sér sérfróða ráðgjafa til að aðstoða sig við vinnuna og þannig mætti áfram telja.

Fyrirkomulagið sem hér er lagt til kemur ekki í veg fyrir að fleiri en þeir sem yrðu kjörnir á stjórnlagaþingið taki þátt í vinnunni. Ég tel mjög mikilvægt að halda því til haga af því það hefur líka komið fram að hér sé bara verið að velja 20–30 manns sem eigi svo bara að loka sig af og koma með fullskapaða afurð inn í þingið. Það tel ég ekki vera.

Þeirrar spurningar hefur líka verið spurt hvort þingið geti ekki bara kastað þessum tillögum þegar þær koma frá stjórnlagaþingi. Í sjálfu sér er það þannig. Í sjálfu sér er það Alþingi sem þarf að taka ákvörðun um hvort það vill gera þær tillögur sem koma frá stjórnlagaþingi að sínum. Aftur komum við að þessu, að óbreyttri stjórnarskrá er ekki hægt að hafa þetta öðruvísi. Þá komum við aftur að þessari spurningu: Ætla menn frekar að láta hugfallast og gera ekki neitt? Sumir kjósa það kannski við óbreyttar aðstæður.

Ég er þeirrar skoðunar að betra sé og réttara að leggja af stað í þennan leiðangur, boða til stjórnlagaþings, kjósa það, fá því það verkefni sem lagafrumvarpið gerir ráð fyrir og að þær tillögur sem út úr því koma komi síðan til Alþingis til umfjöllunar. Verði þær samþykktar hefur það sinn gang samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Það kallar þá á kosningar og að nýtt þing geri þær sömu breytingar á stjórnarskránni til að þær öðlist gildi og verði gild stjórnskipunarlög í landinu.

Þetta er nú mitt viðhorf gagnvart frumvarpinu í heildina tekið.

Ég hlustaði mjög grannt eftir ræðum manna hér í gær. Það var verið að kvarta yfir því í umræðum í morgun að stjórnarþingmenn hefðu ekki tekið þátt í umræðunni eða fylgst með. Ég lét nú setja mig á mælendaskrá mjög fljótt eftir að málið var tekið á dagskrá en komst því miður ekki að fyrr en nokkuð var gengið á þann lista því að margir þingmenn, einkum úr Sjálfstæðisflokknum, voru röskir til að setja sig á mælendaskrá og er það vel. Ég fylgdist með allt til loka umræðunnar í gær og hlustaði á þau sjónarmið sem þar komu fram. Ég lagði mig sérstaklega eftir að hlusta á málflutning framsóknarmanna vegna þess að Framsóknarflokkurinn markaði þá stefnu snemma á árinu 2009 að boða skyldi til stjórnlagaþings og var það eitt af þeim málum sem Framsóknarflokkurinn lagði sérstaka áherslu á, m.a. þegar minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var mynduð í febrúar 2009 með stuðningi hans, að komið yrði á stjórnlagaþingi. Það var ásetningur þessara flokka eins og ég gat um hér í upphafi máls míns þó að það hafi síðan strandað á sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins.

Ég hefði talið að frumvarp um stjórnlagaþing hlyti stuðning framsóknarmanna. Í vinnunni í allsherjarnefnd tóku þeir þá stefnu að styðja ekki málið og á þeirri forsendu fyrst og fremst að eingöngu væri um ráðgefandi þing að ræða en ekki bindandi. Þess vegna hef ég hér ítrekað verið að spyrja: Miðað við óbreytta stjórnarskrá, hvað vilja menn úr því stjórnlagaþingið getur ekki orðið ráðgefandi, vilja menn hætta við?

Ég get í sjálfu sér ekki fullkomlega lesið það út úr áliti 2. minni hluta allsherjarnefndar, fulltrúa Framsóknarflokksins, hvort það er nákvæmlega það sem sá fulltrúi leggur til. En í máli fulltrúa þingmanns Framsóknarflokksins sem talaði hér í gær kvað við allt annan tón. Þá kom fram stuðningsyfirlýsing við málið. Það kæmi mér ekki á óvart að fleiri þingmenn Framsóknarflokksins bættust í þann hóp sem vill styðja þetta mál svona þó að þeir hefðu helst kosið að um bindandi þing væri að ræða. En miðað við að það væri ekki í boði eins og sakir standa, af því að stjórnarskránni hefur ekki verið breytt, vilji þeir þetta heldur. Þetta þótti mér athyglisvert og ég hlýt að hlusta eftir málflutningi fleiri þingmanna Framsóknarflokksins í þessari umræðu hvað þetta snertir.

Það olli mér líka vonbrigðum að fulltrúar Hreyfingarinnar skyldu ekki vilja gangast inn á þessa hugmynd um stjórnlagaþingið með þessum hætti. Þar komum við aftur að sama máli, það er spurningin um bindandi eða ráðgefandi stjórnlagaþing. Hlýtur sú spurning að vakna gagnvart þingmönnum Hreyfingarinnar hvort þeir vilji heldur láta málið bara liggja þar til undir lok þessa kjörtímabils árið 2013, þá fyrst verði komið með einhverjar breytingar á stjórnarskránni sem heimila bindandi stjórnlagaþing sem tæki þá ekki til starfa fyrr en eftir kosningar 2013 og vinna það kannski eitt ár eða svo. Það er sjónarmið í sjálfu sér en það er þá gott að fá það fram hvort það er sá valkostur sem menn vilja frekar en þessa útgáfu af stjórnlagaþingi.

Það hefur verið talað um og haft í mín eyru að þetta sé klúður og ómögulegt mál hvernig um það er búið en mér hefur ekki fundist að það væri stutt sannfærandi rökum. En auðvitað geta menn haft þau sjónarmið og þessar skoðanir og komið þeim á framfæri.

Í frumvarpinu er m.a. fjallað um verkefni stjórnlagaþings. Það var talsvert rætt um það í nefndinni. Í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar kemur fram að þar leggjum við til að bætt sé inn í þá verkefnaskrá — þó að hún sé í sjálfu sér ekki tæmandi gefur hún mynd af því hvað löggjafinn leggur áherslu á, þó að stjórnlagaþinginu sé í sjálfsvald sett að taka fleiri álitamál stjórnarskrárinnar til umfjöllunar en lögin gera ráð fyrir. Þar nefnum við sérstaklega utanríkismálakafla stjórnarskrárinnar sem við teljum að sé vanbúinn, hefur reyndar lengi verið um það rætt að hann sé vanbúinn. Í stjórnarskrárnefndum hér á árum áður hefur það verið almenn skoðun, hygg ég, að svo sé og það þurfi að setja þar inn nánari ákvæði um samskipti Íslands við önnur ríki, framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.

Í öðru lagi er kafli sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ævinlega lagt mikla áherslu á í vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem fjallar um umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Það er inni í breytingartillögunum að þetta skuli talið upp sem eitt af hlutverkum stjórnlagaþingsins. Ég tel að þar sé meiri hluti allsherjarnefndar að betrumbæta frumvarpið frá því sem það var þegar það kom hér fram.

Varðandi tímasetningu stjórnlagaþingsins var, eins og kunnugt er, lagt upp með það að kosið yrði til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum. Tiltölulega snemma í vinnu allsherjarnefndar varð ljóst að það mundi ekki takast og fallið var frá því, enda eru þær nú liðnar þannig að ekki mun koma til þess. Hér er gert ráð fyrir að kosning til stjórnlagaþings verði eigi síðar en 30. október 2010 og gerum við þá ráð fyrir að það geti tekið til starfa undir lok ársins 2010 og fram á árið 2011 þannig að hugsanlega á miðju ári 2011 eða kannski á haustþingi 2011 liggi fyrir tillögur frá stjórnlagaþingi til Alþingis um breytingar á stjórnarskránni.

Ég ætla í sjálfu sér ekki, frú forseti, að fara yfir mikið fleira í tengslum við þetta mál. Mér finnst það liggja tiltölulega ljóst fyrir. Ég tel að talsvert hafi verið kallað eftir því hér, í þeim suðupotti sem var í íslensku samfélagi snemma á síðasta ári, að ráðist yrði í endurbætur á stjórnarskrá okkar. Ég tel að Alþingi sé að bregðast við því kalli með þessum hætti. Okkur eru að sjálfsögðu settar skorður af gildandi stjórnarskrá og við verðum að vinna innan þess ramma sem hún setur okkur. Þó að mörg okkar hefðu gjarnan viljað að stjórnarskrárbreytingar hefðu náð fram að ganga vorið 2009, þá hefði þetta verið í öðru samhengi að sjálfsögðu. Ég hefði talið það æskilegra en það er ekki bara alltaf þannig að menn geti ráðið aðstæðum sínum til fullnustu og þá verður að vinna út frá þeim eins og þær eru á hverjum tíma.

Ég tel að verið sé að bregðast við þessu kalli um utanaðkomandi aðila til að vinna tillögu að nýrri stjórnarskrá með þessu stjórnlagaþingi. Ég tel að við værum að bregðast þessari háværu eftirspurn, vil ég segja, ef við létum þetta mál liggja hér eina ferðina enn og kæmum því ekki fram. Ég tel að ábyrgð þeirra sem standa þá í vegi þess að stjórnlagaþingið geti komist á laggirnar sé mikil. Þá sé enn einu sinni verið að bregða fæti fyrir lýðræðisumbætur í landinu. Ég trúi því varla fyrr en ég tek á að þingmenn stjórnarandstöðunnar ætli allir sem einn að gera það. Ég trúi því ekki.

Ég bind enn talsverðar vonir við að menn sjái sig um hönd og ákveði að koma í þennan leiðangur, þessa nýbreytni við endurskoðun á stjórnarskránni, með kosningu stjórnlagaþings. Jafnvel þó að ekkert okkar sé fullkomlega ánægt með alla hluti í útfærslunni held ég að í heildina litið hafi vel tekist til. Mér finnst m.a. mikilvægt að stjórnlagaþinginu sé í fyrsta lagi gert að leita eftir hugmyndum almennings með þjóðfundum í öllum landshlutum og að kynna hugmyndir sínar og fá viðbrögð á það. Hægt er að nota nýjustu tækni við það líka, það á ekki að vera neitt vandamál. Ég tel að við séum hér að efna í góða vinnu. Ég bind miklar vonir við það og ég treysti því, eins og ég sagði áðan, að hv. þingmenn muni hugsa sig vel um áður en þeir reyna að bregða fæti fyrir þetta mál þó að það sé ekki endilega í þeim búningi sem hver og einn hefði kosið til fullnustu.