138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[13:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Þetta ætti að vera mjög einfalt mál. Með dómi Hæstaréttar þarf að afskrifa kröfur erlendra aðila á Íslendinga upp á tugi eða hundruð milljarða króna. Þegar kröfurnar lækka svona mikið ætti það augljóslega að gagnast þeim sem fá þessar afskriftir, en líka samfélaginu í heild. Nú virðist allt einhvern veginn vera komið á hvolf. Hæstv. viðskiptaráðherra talar eins og það hafi verið gerð stórkostleg mistök við stofnun nýju bankanna. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort þessar yfirlýsingar ráðherranna nú séu staðfesting á þeim áhyggjum sem margir, ekki hvað síst þingmenn Framsóknarflokksins, hafa haft af því hvernig staðið var að því máli frá upphafi. Fræg varð umræðan um leyniklefann í fjármálaráðuneytinu þar sem geymd voru gögn um stofnun nýju bankanna, eða réttara sagt mat á því hvernig væri eðlilegt að standa að því. Frá þeim tíma og fram á daginn í dag hafa menn spurt spurninga um þessa nýju banka, hver eigi þá, hvernig þeir voru stofnaðir, hvort gerð hafi verið mistök með eitt og annað. Þessu hefur ríkisstjórnin hafnað í hvert einasta sinn. Nú allt í einu, með dómi Hæstaréttar, þegar afskrifa á gríðarlegar kröfur útlendinga á Íslendinga tala ráðherrarnir eins og það lendi að miklu leyti á íslenskum almenningi og skattgreiðendum. Það virðist þá vera staðfesting á því að ríkisstjórnin hafi klúðrað málum alveg ótrúlega við stofnun nýju bankanna.

Það þarf ekki bara að líta til umræðu í þinginu, þingmanna Framsóknarflokksins eða annarra varðandi þessar viðvaranir. Björn Þorri Viktorsson lögmaður sem sótti eitt af þessum málum fyrir Hæstarétti sendi fyrir margt löngu bréf á ríkisstjórnina og þingmenn. Þar talaði hann um að taka yrði tillit til þess við stofnun nýju bankanna að málin kynnu að fara eins og þau fóru. Það virðist ekki hafa verið gert miðað við yfirlýsingar hæstv. ráðherra hér í dag.

Hæstv. viðskiptaráðherra talar um að menn hafi komist upp með að líta fram hjá lögum allt of lengi. Það er að sjálfsögðu alveg rétt. Menn hafi brotið í bága við lögin. En leit ríkisstjórnin ekki algjörlega fram hjá þessum lögum þegar hún stofnaði bankana, þrátt fyrir að hafa fengið viðvaranir í þinginu og frá mönnum úti í bæ? Það er ekkert tillit tekið til þessa og má segja að staða ríkisstjórnarinnar og eftirlitsaðila sé ólík á þann hátt að eftirlitsaðilarnir höfðu þó ekki fengið beinar viðvaranir í bréfum og þingræðum.

Nú talar hæstv. viðskiptaráðherra allt í einu um forsendubrest. Það mátti ekki heyra minnst á forsendubrest þegar rætt var um stöðu almennings og stöðu heimilanna. Framsóknarmenn töluðu mikið um að nauðsynlegt og eðlilegt væri að leiðrétta lán til handa almenningi en það mátti hvorki ræða um forsendubrest né taka hann með við útreikninga. Þegar í hlut eiga erlendir kröfuhafar, sem einhverra hluta vegna er gríðarlega mikilvægt að halda góðum og gleðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, má allt í einu tala um forsendubrest. Þá fer ríkisstjórnin að tala eins og hún sé að gefa Hæstarétti Íslands fyrirmæli um hvaða niðurstöðu Hæstiréttur verði að komast að þegar hann úrskurðar um hvernig eigi að gera þessi lán upp. Það er mjög undarlegt að ríkisstjórn skuli bera sig að með þeim hætti og í rauninni töluvert áhyggjuefni.

Skilaboðin frá Seðlabankanum virðast öll einhvern veginn vera á hvolfi. Þar er talað um að halda þurfi vöxtum háum og viðhalda gjaldeyrishöftum lengur vegna dómanna. Hvernig stendur á því? Ef kröfur útlendinga á Íslendinga hafa minnkað svona gríðarlega, af hverju þarf þá að halda háum vöxtum og gjaldeyrishöftum lengur? Einhvern veginn gengur það ekki upp, ekki frekar en það sem seðlabankastjórinn sagði um að hætta væri á að með þessu skapaðist japanskt ástand, þ.e. að hér yrði ekki hagvöxtur eins og raunin hefur verið í Japan síðustu tvo áratugi. Í Japan var ástandið einmitt þannig að menn afskrifuðu ekki lánin. Þau voru ekki færð niður. Lánunum var breytt í 100 ára lán og það skapaði þetta japanska ástand sem varð til þess að hagkerfið þar hefur ekki náð sér á strik. Ætti dómur Hæstaréttar ekki að vera góð efnahagsleg tíðindi? Ætti þetta ekki að koma hlutum af stað? Nema hér hafi verið gerð gífurleg mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hún verður að svara fyrir það í hverju þau mistök liggja. Jafnframt hljótum við að sjá á þessu þá meginniðurstöðu að langæskilegast hefði verið, á meðan bankarnir voru enn á forræði stjórnvalda, að grípa strax inn í og leiðrétta lánin, færa þau aftur eins og þau voru í upphafi árs 2008, um 20% eins og við bentum á á þeim tíma. Þá hefði gengi krónunnar væntanlega styrkst og erlend lán lækkað að sama skapi. Þess í stað virðist hafa vera staðið að stofnun bankanna með þeim hætti sem ríkisstjórnin á heldur betur eftir að gera grein fyrir.