139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

staðan í makrílviðræðunum.

[15:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Vissulega þurfa Íslendingar að standa vörð um rétt Íslands sem strandríkis til þess að nytja fiskstofna innan fiskveiðilögsögu sinnar. Við munum að sjálfsögðu standa í fæturna í þessu máli. Það er samt ágætt, held ég, og þarft fyrir okkur að huga að samhengi málsins.

Þegar við Íslendingar hófum að veiða makríl að einhverju marki um og upp úr 2006 gerðumst við svo stórtæk að á einu ári jukust veiðarnar úr 36 þúsund tonnum í 112 þúsund tonn og ári síðar í 120 þúsund tonn eða um fimmtung af heildarmagninu sem Evrópuþjóðirnar veiða til samans. Við fórum illa með verðmæti. Þessum dýrmæta matfiski var mokað upp úr sjónum en ekki til manneldis. Fyrstu tvö árin fór allur makríll úr íslenskum fiskiskipum til bræðslu. Þetta mæltist illa fyrir. Veiðarnar fengu á sig orð fyrir að vera rányrkja og orðstír Íslendinga sem fiskveiðiþjóðar beið hnekki.

Ástæðan er sú að Íslendingar vildu skapa sér samningsstöðu og veiðireynslu til að standa betur að vígi í samningum þjóða um nýtingu þessa deilistofns. Hér er mikið í húfi því að deilistofnar á borð við loðnu, kolmunna, karfa og fleiri tegundir eru okkur Íslendingum afar mikilvægar. Um 30% tekna af íslenskum sjávarafurðum eru vegna veiða úr deilistofnum.

Nú hefur blessaður makríllinn tekið sér stöðu með okkur. Hann gengur inn í lögsögu okkar í áður óþekktu magni og er veiddur hér. Vitanlega stöndum við fast á rétti okkar sem strandríkis að veiða innan eigin lögsögu. Það má minna á að ábyrgð annarra ríkja að ganga skynsamlega um nytjastofninn er ekki síðri en okkar. Þar hafa t.d. Norðmenn, Rússar og Evrópusambandið ekki sýnt gott fordæmi því að þeir hafa einhliða ákveðið sína (Forseti hringir.) kvóta sjálfir og veitt mun meira en ráðgjöf gefur tilefni til.

Frú forseti. Það er hlutverk íslenskra stjórnvalda að vinda ofan af verðmætasóuninni (Forseti hringir.) og endurheimta orðstír okkar. Þannig stöndum við að sjálfsögðu sterkar að vígi í samningum við aðrar þjóðir um nýtingu þessa stofns.