139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ítarlega hefur verið fjallað um boðaðan niðurskurð í heilbrigðismálum á landsbyggðinni en það hefur kannski ekki farið mjög hátt að einnig hefur verið boðaður niðurskurður á hjúkrunarrýmum á öldrunarheimilum víðs vegar um landið, þá kannski einkum á Akureyri og í Fjallabyggð. Fækki hjúkrunarrýmum á öldrunarheimili Akureyrar um þrjú rými eins og boðað var í fjárlagagerð 2010 og sjö rými sem nú eru boðuð í niðurskurði auk fækkunar hjúkrunarrýma á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, sem orðin er, yrði hjúkrunarrými á Akureyri og nágrenni skert um 33 rými á aðeins fimm árum. Þetta þýðir með öðrum orðum að það er verið að leggja til að skerðingin á hjúkrunarrýmum á Akureyri geti orðið allt að 40 rými, þ.e. 20%, á örfáum árum, úr 200 í 160 í höfuðstað Norðurlands.

Þessi boðaði niðurskurður er alvarlegt mál fyrir alla sem fá öldrunarþjónustu á Akureyri vegna keðjuverkandi áhrifa sem verða á öldrunarþjónustunni á svæðinu í heimaþjónustu, heimahjúkrun, hvað varðar skammtímainnlagnir og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri svo ekki sé minnst á aukið álag á aðstandendur sem oft sinna sínum langt umfram getu.

Mig langar til að spyrja hv. varaformann heilbrigðisnefndar, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, hvað henni finnist og hver stefna stjórnvalda sé í þessum málum. Ég trúi því varla að það sé stefna stjórnvalda að ganga svo hart að einu sveitarfélagi og öldruðum og sjúkum sem þar búa, svo ekki sé talað (Forseti hringir.) um fjölda starfsmanna sem þarf að segja upp vegna niðurskurðarins.