139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[14:57]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fullyrðir að erlend fjárfesting hafi verið fæld frá landinu. Við skulum aðeins skoða hvers konar erlend fjárfesting hefur komið hingað til lands á undanförnum áratugum. Erlend fjárfesting hefur ekki skilað sér í mjög fjölbreyttum mæli til landsins hingað til þrátt fyrir að hér hafi verið mikið góðæri á einhverjum tímum. Við verðum að beina sjónum í rétta átt í þessu efni og horfast í augu við raunveruleikann. Hingað til hefur erlend fjárfesting sem við höfum fengið verið álbræðslur og síðan á tímabili bankastarfsemi en þá voru það aðallega íslensku bankarnir erlendis sem komu með fjármagn inn í landið. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Við þurfum beinlínis að skapa betri skilyrði en við höfum nokkurn tíma boðið upp á fyrir þá hreinu erlendu fjárfestingu sem við þurfum svo mjög á að halda. Hvernig gerum við það? Það hljótum við að gera með því að bjóða upp á viðskiptaumhverfi sem menn þekkja og þar með gjaldmiðil sem menn þekkja. Gjaldmiðillinn hefur verið mikil hindrun fyrir erlenda fjárfestingu. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd.

Ég legg áherslu á það við hv. þingmann að vonandi eigi ívilnunarpakkarnir sem við samþykktum sl. vor eftir að gera erlendar fjárfestingar fjölbreyttari en við höfum séð hingað til vegna þess að stöku fjárfestingarsamningar sem menn gerðu áður voru hreinlega of þunglamalegir fyrir minni fjárfesta til að þeir kæmu hingað. Varðandi Helguvík tel ég að undirritun mín á fjárfestingarsamningi vegna framkvæmdanna þar við Norðurál segi sína sögu. Ég held að það frumkvæði sem ég hef sýnt í að leiða deiluaðila að borðinu segi allt um hvort ég styðji þetta verkefni eða ekki. (Gripið fram í.) Ég held að ég hafi sýnt það í verki hver hugur minn er í því máli. (Forseti hringir.) Ég tel að við förum að sjá til lands í því efni og óvissunni verði eytt. Ég tek undir með hv. þingmanni Björgvini G. Sigurðssyni sem sagði áðan (Forseti hringir.) að vísbendingar væru um að við fengjum góðar fréttir innan tíðar.