139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Að því gefnu að búið sé að skattleggja allt undir drep tek ég þátt í hlutum sem mér annars þættu óeðlilegir. Ég hef átt þátt í því að stofna nokkur fyrirtæki og þar af nýsköpunarfyrirtæki og er Kaupþing eitt af þeim. Það hefði hamlað þeim fyrirtækjum ef ég hefði lagt í þá vegferð að fara að afla styrkja vegna þess að það er svo mikil vinna að það er miklu betra að vinna fyrirtækinu til framgangs en vera að sækja um einhverja styrki eða niðurfellingu. Fyrir utan það þarf maður strax að fara að hlíta einhverjum reglum sem eru oft og tíðum kjánalegar og asnalegar frá sjónarhorni fyrirtækjanna.

En ég spurði hv. þingmann hvort hann mundi vilja fara í þann hóp sem heitir fjármagnseigendur, og er ljótur hópur, með því að fjárfesta í hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtæki? Mundi hann gera það að fenginni reynslu margra frænda sinna og vina sem hafa átt hlutabréf, því að hann hlýtur að þekkja einhverja slíka, og að því gefnu að engu hefur verið breytt og menn hafa ekkert gert til að auka traust og trú á áhættufjárfestingu? Núverandi ríkisstjórn hefur ekki gert eitt einasta handtak til að auka traust á áhættufjárfestingu. Þvert í mót vinnur hún stöðugt að því að tala illa um fjármagnseigendur og tala illa um þá sem leggja fyrir og gæta hagsýni í heimilishaldi og eiga þar af leiðandi pening til að leggja fyrir. Það virðist vera stefnan að allir eigi að eyða og spenna öllu sem þeir eiga þannig að þeir lendi ekki í þeirri ógæfu að verða fjármagnseigendur, annaðhvort með sparifé eða hlutafé. Eða þá auðlegðarskatturinn sem er til að kóróna það að menn skulu ekki eiga nema ákveðið mark því að hitt er skattað burt í stöðu þar sem fjármagnið gefur neikvæða vexti.

Ég spyr hv. þingmann aftur: Mundi hann ganga í þennan hóp fjármagnseigenda?