139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[13:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um Landsvirkjun. Umræðan hefur bæði verið upplýsandi og góð að mínu áliti. Það er áhugavert að heyra, miðað við ræðurnar sem haldnar hafa verið, að það er ekki margt sem skilur á milli ólíkra stjórnmálaflokka né ólíkra stjórnmálamanna. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra benti á hið augljósa að Landsvirkjun væri traust og öflugt fyrirtæki sem ætti sér bjarta framtíð og geti nýst Íslendingum vel. Það þýðir einfaldlega að fjárfestingarnar sem fyrirtækið hefur farið í á undanförnum árum hafa reynst vel. Það er mikilvægt að það komi fram vegna þess að pólitískar deilur voru um það, t.d. Kárahnjúkavirkjun og annað.

Ég ætla hins vegar að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Helgi Hjörvar, sem var í ræðustól fyrir hlé, hvarf frá. Hann minntist á þátt sem ég held að skipti miklu máli. Við höfum tilhneigingu til þess að tala um að hrunið sé fyrst og fremst afleiðing af hegðun einkafyrirtækja. Það er enginn vafi á því að þar báru bankarnir stærsta ábyrgð. Því miður er málið ekki svo einfalt að við getum afmarkað það þar. Eins og kom fram í umræðunni sjáum við ekki fyrir endann á miklum skaða annars staðar. Við sjáum það hjá sparisjóðunum sem voru svo sannarlega ekki einkafyrirtæki, í þeirri meiningu að þeir voru ekki hlutafélög eða slíkt.

Sömuleiðis opinber fyrirtæki eins og Íbúðalánasjóður sem ég held að flestir hafi talið, miðað við umræðuna, að væri í góðum málum eftir öll áföllin. Því miður bendir flest til þess, miðað við upplýsingarnar sem ég fékk frá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, að staðan þar sé alvarleg. Eiginfjárhlutfallið er komið niður í 2% og ekki búið að taka inn allar afskriftir hjá fyrirtækinu. Við gerðum þá kröfu að eiginfjárhlutfall nýju bankanna væri 16% þannig að þar líta málin ekki vel út.

Hv. þm. Helgi Hjörvar talaði um að áhættuvarnirnar hefðu þróast út í áhættutöku. Ég held að það sé mikið til í því. Orkufyrirtækin eru gríðarlega mikilvæg og sömuleiðis geta þau verið frek á samkeppnismarkaðnum ef þau fara þangað vegna þess að þau eru stór og öflug fyrirtæki og það skiptir máli að við skilgreinum hvar þau eiga að liggja. Mér sýnist fljótt á litið þessar breytingar á frumvarpinu um Landsvirkjun ekki vera jafnskýrar og frumvarpið um Orkuveitu Reykjavíkur sem verður væntanlega rætt hér á eftir. Mér sýnist að við séum að takmarka ábyrgð skattgreiðenda, það er jákvætt.

Ég held að við þurfum að sjá til þess að fyrirtækin vinni fyrst og fremst á umhverfis- og orkusviðinu. Þessi fyrirtæki eru í fremstu röð í heiminum þegar kemur að því að nýta umhverfisvæna orkugjafa. Í því felast gríðarleg tækifæri, ekki bara núna heldur líka í framtíðinni. Það er þekking sem er að finna í fyrirtækjunum og verkfræðifyrirtækjunum eins og háskólunum og öðru slíku á Íslandi, sem er séríslenskt. Þekkingin hefur á undanförnum árum verið einna best ef ekki best á Íslandi vegna þess að við höfum svo til verið einir að vinna að þessu. Við virkjuðum með umhverfisvænum hætti meðan aðrar þjóðir voru fyrst og fremst í olíuvinnslu, gasvinnslu og öðru slíku og hirtu ekki um að nýta auðlindir sem eru úti um allan heim.

Við erum að missa mikið af fólki úr landi vegna þess að við höfum sett stopp á allar framkvæmdir á þessu sviði. Út af pólitískum deilum innan lands erum við að missa gríðarlegan mannauð úr landi og fólk sem hefði komið heim kemur ekki heim. Það er þannig að þegar ungt fólk eða fólk á öllum aldri er búið að koma sér fyrir í öðrum löndum er ekki sjálfgefið að það komi til baka. Við þurfum að líta til vina okkar í Færeyjum til að sjá hvað gerðist þar eftir þeirra kreppu. Þeir misstu mikið af fólki. Hátt hlutfall fólks með góða menntun sem hefði nýst þjóðfélaginu vel fór úr landi. Þetta fólk er ekki enn þá komið til baka þó að rofað hafi til í efnahagsmálum hjá vinum okkar Færeyingum.

Síðan er hitt sem hæstv. ráðherra benti á. Ég held að það þurfi ekki að vera pólitískar deilur um að það er jákvætt að breikka viðskiptavinahópinn. Það er jákvætt að vera með dreifðari áhættu. Ég átta mig að vísu ekki alveg á því í hverju munurinn liggur þegar menn ætla að hætta að tengja þetta við álver og tengja tekjurnar frekar við orkuverð. Álverð og orkuverð tengist og álverð og vextir tengjast líka. Ef álverð lækkar lækka vextir sem er heppilegt fyrir þessi fyrirtæki. Hins vegar er þetta ekki stærsta málið en menn skyldu heldur ekki tala um það sem svo. Sjálfur beitti ég mér fyrir því að við fengjum breiðari viðskiptavinahóp, ekki bara álverksmiðjur þegar ég var í þeirri stöðu og hafði tækifæri til. Ég ætla ekki að tala gegn því núna, því fer víðs fjarri, frekar mun ég styðja það.

Ég sá í fréttum í morgun að Landsvirkjun væri að skoða hluti eins og vindmyllur og aðra orkugjafa. Þar höfum við Íslendingar svo sannarlega tækifæri og það skyldi þó ekki vera, virðulegi forseti, að við mundum geta grætt eitthvað á þessu endalausa roki sem er á sumum stöðum á landinu. Það væri fagnaðarefni.

Umhverfisvæn orka er framtíðin. Ég held að allir séu sammála um það. Það er alveg ljóst að heimurinn mun þurfa á mikilli orku að halda. Þó svo að við séum í efnahagskreppu núna þá eiga stórar þjóðir eftir og ætla sér að komast á sama stað og vestrænar þjóðir eru á núna. Þá er ég að vísa í lífskjör. Þau vilja njóta þess sem við njótum núna og flest af því sem við njótum og teljum vera sjálfsagt er knúið áfram með orku. Það þýðir einfaldlega að eftirspurn eftir orku mun aukast og þrátt fyrir að tæknin sé alltaf að verða fullkomnari til þess að nýta olíulindir, gaslindir og annað slíkt, sem menn gátu ekki nálgast áður og vissu ekki að væri til og hægt væri að nýta betur en áður, þá eru ýmsar ástæður fyrir því, helst umhverfissjónarmið, sem gera það að verkum að ekki mun vera sjálfgefið að nýta það allt saman. Þrátt fyrir að svo væri er mikil eftirspurn eftir orku frá öðrum orkugjöfum og ekki nokkur einasti vafi að umhverfisvæn orka verður þar vinsælust.

Þar eigum við mikil tækifæri. Það væri æskilegt ef næðist pólitísk samstaða um að nýta tækifærin sem eru til staðar á Íslandi. Ef við nýtum þau tækifæri ekki mun einhver annar gera það.

Ég talaði í andsvari áðan, virðulegi forseti, við hæstv. ráðherra um að við ættum að breyta lögunum, m.a. um Landsvirkjun, og taka út orðin „ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi“ í 2. gr. laganna. Ég held að það mundi auka samstöðuna með fyrirtækinu og minnka líkurnar á því að fyrirtæki fari í eitthvað sem væri algjörlega ótengt því sem við, heyrist mér, sem hér tölum erum sammála um að fyrirtæki ættu að vera í. Ég held að við ættum sömuleiðis að gera þetta í lögunum um Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja, Norðurorku og fleiri fyrirtæki. Ég flutti frumvarp um þetta á 130. löggjafarþingi 2003–2004 ásamt ágætum mönnum, m.a. hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég veit að hann þekkir frumvarpið vel og man eftir því. Hann fer kannski betur í það á eftir.

Núna er tækifærið, virðulegur forseti, til þess að fara yfir málin. Miðað við viðbrögðin sem maður hefur heyrt í ræðunum þá held ég að það sé pólitískur grundvöllur fyrir því. Ég er ánægður að heyra að menn eru sammála um mikilvægi fyrirtækjanna. Miðað við áætlanirnar sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti, og er stefna ríkisstjórnarinnar, er alveg ljóst að menn ætla að halda áfram að nýta umhverfisvæna orkugjafa og láta Landsvirkjun nýta þá. Út á það gengur áætlun fyrirtækisins. Það vísar á gott, það vísar til þess að pólitíska karpinu sem hefur gert það að verkum að við höfum bæði misst tekjur og fólk úr landi á undanförnum mánuðum er vonandi að ljúka. Við erum þá að nýta tækifærin sem eru á þessu sviði og því fagna ég.