139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var næstum því hrærður þegar ég hlustaði á hv. þingmann undir miðbik ræðu sinnar. Í þessari umræðu hefur það komið fram að einn af helstu efnahagsfræðimönnum þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, hefur sagt það, aðspurður úr þessum ræðustóli í dag, að þessi samningur rúmist innan þess ramma sem Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í að móta og greiddi atkvæði með við 2. umr. málsins í ágúst í fyrra. Hann hefur sagt að það rúmist prýðilega þar fyrir innan. Með öðrum orðum að málið uppfylli þau skilyrði sem Sjálfstæðisflokkurinn setti í fyrra. Maður mundi nú ætla að jafnvel þó að hv. þingmaður gæfi sér góðan tíma til að skoða málið, af því að ég veit að hann er fastur fyrir og jafnan harður á sinni sannfæringu, þá hefði hann ekki skipt um skoðun frá því í fyrra. Ég veit að það er ekki eðli hv. þingmanns. Mér finnst að hv. þingmaður, um leið og ég segi skýrt að ekki vil ég frá honum taka réttinn til að skoða málið frá öllum hliðum, megi samt sem áður ekki víkja frá sér því sem hann á þó í málinu. Þetta mál hefði aldrei orðið að veruleika nema út af þessu samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu og hv. þingmaður á sinn þátt í því eins og hans flokkur og það er rétt að öllum sé gefið það sem þeir eiga. Forsenda þess að málið komst til þessarar niðurstöðu var að það tókst breið samstaða. Þannig var málið lagt upp í upphafi af því að það var ljóst að sú staða sem málið var komið í í byrjun þessa árs var þess eðlis að viðsemjendur okkar vildu ekki halda í nýja lotu nema það lægi fyrir að stjórnarandstaðan væri til í að koma að málum og það gerði hún. Það segi ég henni til hróss.