139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Við tökum fyrir Icesave 3. Alþingi fjallar um sama mál og skotið var til þjóðarinnar á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar með ákvörðun forseta Íslands þann 5. janúar 2010. Við erum enn með sömu ríkisstjórnina og við fjöllum um sama samninginn. Ég held að það sé eðlilegast að Alþingi samþykki niðurstöðu sína í Icesave-málinu með fyrirvara um að hún öðlist gildi samþykki þjóðin það í atkvæðagreiðslu. Það er mikilvægt að þjóðin fái að kjósa um málið áður en við látum það taka gildi. Ástæða þjóðarinnar var skýr og ef Alþingi samþykkir að skattgreiðendur axli ábyrgð á einkaskuldum fjárglæframanna hafi þjóðin eitthvað um það að segja.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan við fjölluðum um þetta mál. Vissulega eru ýmsir þættir nýja samningsins töluvert betri en það sem síðast var lagt á borð. Krafa okkar að áhættu varðandi eignir og uppgjörið á gamla Landsbankanum yrði skipt á milli Íslendinga, Hollendinga og Breta var ekki tekin til greina. Mér finnst skelfilegt að standa hér og ætlast til þess að með samningnum leggjum við þjóðina að veði þó að það sé margt sem gefi til kynna að heimtur verði góðar í eignasafni Landsbankans. Við höfum ekkert sem getur tryggt það nema þjóðina. Það á sem sagt að leggja þjóðina að veði. Ég get ekki undir neinum kringumstæðum tekið þátt í því. Þetta er krafa sem Hreyfingin lagði fram um að yrði í það minnsta sameiginleg ábyrgð á milli þjóðanna en það var ekki hægt að fá í gegn.

Rætt hefur verið um dómstólaleiðina. Eins og allir vita er ekki hægt að vita fyrir fram hvernig slíkt fer, enda væri þá varla þörf á dómstólum. Er það meiri áhætta en eignasafn Landsbankans? Ég veit það ekki. En í prinsippinu er ég algerlega á móti því að velta einkaskuldum yfir á herðar almennings. Þess vegna er ljóst að ég mun ekki samþykkja samninginn, enn þá er það það eina sem er í boði. Það er mikilvægt að fólk hafi í huga að við heyrum aðeins aðra hliðina á því hvernig alþjóðasamfélagið bregst við. En kannski er það bara alþjóðasamfélagið í Bretlandi og Hollandi og þeir sem halda þéttast um taumana hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Ég fæ skilaboð á hverjum einasta degi frá fólki, m.a. í Bretlandi og Hollandi, sem dáir þjóðina fyrir að hafa risið upp gegn því að taka við skuldum einkafyrirtækja, að taka við skuldum manna sem er í skoðun hvort hafi framið fjárglæpi. Að vera hvítflibbaglæpamaður er ekkert betra en annar glæpamaður þó að það hljómi fallega.

Ég vil ítreka að ef ætlast er til þess að almenningur beri byrðarnar sem okkur ber engin lagaleg skylda til að velta yfir á þjóðina, þá fái þjóðin að kjósa um það. Það er óþarfi að fara í sama ferli og síðast, að kalla eftir undirskriftum og fara með þær til forsetans. Við eigum að taka ákvörðun um að við ætlum að hlusta á fólkið í landinu. Við eigum að bera það mikla virðingu fyrir almenningi að hann fái að kjósa um málið, að hann fái að staðfesta samninginn. Hann getur valið en það er ekki okkar. Valdið var tekið af þinginu síðast. Það hefur ekkert breyst nema samningurinn sem er öðruvísi en hann er eins í eðli sínu. Hann er betri því að vextir hafa almennt séð lækkað, ekki bara í þessum samningi heldur almennt.

Ég hefði viljað að við kláruðum málið með reisn. Það er engin reisn yfir því hvernig þetta fer í gegnum þingið. Þeir sem börðust hatrammast gegn því að velta einkaskuldum yfir á herðar almennings hafa nú gengið til fylgilags við ríkisstjórnina. Maður veit ekki hvað Sjálfstæðisflokkurinn fær í staðinn. Það er vitað að yfirleitt gerir Sjálfstæðisflokkurinn ekki mikið nema fá eitthvað í staðinn. Ég velti fyrir mér hvað það er, hvort það séu ráðherrasæti eða hvort það hafi eitthvað með fiskveiðistjórnarkerfið að gera. Það væri ágætt að fá það upp á borð þannig að ekki sé verið að hvísla um það á göngunum. Það væri gott ef við gætum lagt spilin á borðið einu sinni og verið heiðarleg á þessum vinnustað. Það virðast ekki ætla að verða örlög þessa þings. Það verða kannski örlög næsta þings. Það er ljóst, ef tvinna á saman nýrri ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, að það yrði mikið ógæfuspor fyrir þjóðina og fyrir tilraunina að reisa samfélagið upp á öðrum gildum. Gleymum því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn segir að þjóðin hafi ekkert að gera með nýja stjórnarskrá. Sjálfstæðismenn berjast hatrammlega gegn því en lofa öllu fögru varðandi auðlindaákvæðin. Við skulum muna eftir sögunni um það hvernig þeir hafa staðið í vegi fyrir því að þjóðin hafi eitthvað um það að segja hver á hvað.

Ég er mjög hrygg. Stofnunin sem ég vinn hjá hefur valdið mér ótrúlegum vonbrigðum. Mér finnst fólk alltaf setja flokk sinn ofar þjóðarhagsmunum. Þetta er eitthvað sem þarf að breytast. Ég veit að það eru örfáir þingmenn sem hafa sýnt aðrar tilhneigingar. Ég er ánægð með að Framsóknarflokkurinn hefur tekið ákvörðun um að berjast áfram gegn þessu. Það lítur út fyrir að einungis Hreyfingin og Framsókn ætli ekki að láta þetta ganga yfir þjóðina án þess að berjast fyrir að þjóðin hafi eitthvað um þetta að segja. Eftir atburði sem áttu sér stað í september þegar kosið var um niðurstöður þingmannanefndarinnar sem fjallaði um rannsóknarskýrsluna held ég að þingið hafi misst trúverðugleika sinn. Það sem núna er að gerast, ef fólki er annt um fjórflokkinn sinn, er smiðshöggið sem gengur endanlega frá þeirri hugmyndafræði, kannski er þetta allt saman gott og blessað þegar á heildina er litið. Það hryggir mig að sjá fólk ganga þvert gegn eigin prinsippum, mér finnst það hryggilegt og það gefur mér litla von um að þingið geti gert það sem það lofaði í upphafi, að heyra sannleikann. Ég vonast til að heyra hvað Sjálfstæðisflokkurinn fær í staðinn. Það væri langheiðarlegast að leggja allt á borðið, hvort sem það kemur frá Sjálfstæðisflokknum eða þeim sem gefa.

Ég endurtek í þriðja sinn, það er ágætt að segja hlutina þrisvar, þá er meiri möguleiki að þeir verði að veruleika: Ég skora á þingmenn hvar í flokki sem þeir standa, sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, sem studdu að þjóðin fengi eitthvað um þetta að segja síðast og ég skora á þingið að leyfa þjóðinni að hafa fyrsta orðið og síðasta varðandi Icesave 3 áður en samningurinn verður lögfestur á Alþingi.