139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Senn líður að lokum þessa máls, þessa mikla hagsmunamáls sem verið hefur yfirvofandi í rúmlega tvö ár. Þetta hefur verið langt og mikið ferli og ég held að allir séu fegnir að því sé lokið. Ég veit að þjóðin er þreytt á þessu og fólk vill klára þetta. En við sem stöndum hér á Alþingi erum einfaldlega kosin til þess að fara yfir málið af ábyrgð, kanna öll gögn og komast að niðurstöðu. Við megum aldrei láta undan tilfinningum, hvort okkur leiðist umræðan eða séum orðin þreytt, við verðum einfaldlega að standa okkar vakt og það höfum við framsóknarmenn reynt að gera í þessu máli.

Við höfum verið sanngjarnir og viðurkennt að samningarnir eru miklu betri en hinir fyrri. En að því sögðu verður að hafa í huga að fyrri samningarnir tveir eru einhverjir verstu samningar sem hafa verið gerðir í sögu íslenska lýðveldisins, ef ekki í sögu heimsins. Fyrri samningunum var einfaldlega líkt við Versalasamninginn sem var gerður í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, hvorki meira né minna, slíkir voru afarkostirnir sem Íslendingar áttu að gangast undir.

Samningarnir í dag eru einfaldlega þannig að Íslendingar eiga að borga höfuðstólinn til fulls. Þetta er bara eins og lán sem einstaklingur tekur og bankinn ætlar ekki að gefa neinn afslátt — einstaklingurinn á að borga höfuðstólinn algjörlega upp í topp. Bankinn hefur hins vegar lækkað vextina í ljósi þess að umræddur einstaklingur á hugsanlega ekkert að borga með og hann hefur líka veitt tilslakanir í þá átt að ef efnahagur einstaklingsins versnar á einhvern hátt megi taka mið af því. En einstaklingurinn á að borga og hann skal borga. Hann skal borga vexti á næstu dögum upp á 26 milljarða kr. Sú upphæð er rúmlega það sem við eyðum í samgöngumál á Íslandi, þá er ég að tala um allar vegaframkvæmdir, öll jarðgöng og allt, allur pakkinn eins og hann leggur sig. (PHB: Og allur niðurskurðurinn.) Og þetta er nánast allur niðurskurðurinn. Nánast allur niðurskurðurinn, og þó blossuðu upp mótmæli gegn brotabroti af þeim niðurskurði. Slíkar eru upphæðirnar sem við erum að fara að semja um hér í dag.

Í ljósi alls þess sem á undan er gengið — það er staðreynd að athæfi ríkisstjórnarinnar hefur veikt samningsstöðu Íslands til mikilla muna, það má ekki horfa fram hjá því — held ég að erfitt sé að gera sér í hugarlund að samningarnir gætu orðið betri, jafnvel þótt þeir séu ekki nógu góðir. Þá vaknar þessi spurning: Eigum við að borga eða eigum við ekki að borga? Okkar mat liggur einfaldlega í því að sá vafi sé of stór til þess að hægt sé að hundsa hann.

Við höfum sagt að líkurnar á að vinna dómsmál séu meiri en minni. Það má styðja það með gögnum sem við höfum gert, vísa í marga lögfræðinga og sérfræðinga. Þrátt fyrir það segja sjálfstæðismenn, þeir meta líkurnar meiri en minni að dómsmálið vinnist, að áhættan af því að tapa sé svo mikil. Þeir eru þó ekki með nein gögn sem styðja þá niðurstöðu og það finnst mér miður. Það vakna óneitanlega spurningar: Af hverju hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið svona vaklandi í umræðunni? Af hverju lenti hann á gula takkanum í upphafi málsins þegar fyrirvarar voru samþykktir haustið 2009? Ef Sjálfstæðisflokkurinn verður á græna takkanum í dag hefur hann náð því einstaka afreki að vera á öllum þremur tökkunum í þessu máli; rauða takkanum, gula takkanum og loks græna takkanum. (Gripið fram í.) Ég er ekki viss um að þetta teljist sérstaklega ábyrg afstaða enda veit ég að margir þingmenn (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins eru í miklum vafa. Nú líður að atkvæðagreiðslu, frú forseti, (Forseti hringir.) og við skulum sjá hverjar lyktir málsins verða.