139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

430. mál
[16:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í eina tíð var starfandi þjóðhagsstofnun á Íslandi og ég minnist þess að margir hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarandstöðuþingmenn, gagnrýndu niðurstöður þeirrar stofnunar, m.a.s. þingmenn sem nú eru hæstv. ráðherrar, og sögðu hana vera málpípu ríkisstjórnarinnar. Ég vil bara koma þessu inn í umræðuna vegna þess að slík stofnun sem starfar fyrir hið opinbera fær alltaf þann stimpil að starfa fyrir meiri hlutann, því miður.

Hins vegar tel ég alveg skoðunar virði að Alþingi komi sér upp slíkri hagstofu til að meta ýmiss konar mál sem alþingismenn eru að meta. Til dæmis hefði verið mjög gott að hafa núna svona stofnun til að meta Icesave og sérstaklega hvað gerist ef við segjum nei við Icesave.