139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:08]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Stærsti reikningurinn sem við stöndum frami fyrir er hæstv. núverandi ríkisstjórn. Við stöndum frammi fyrir tveimur afarkostum þrátt fyrir Icesave-samning sem er aðeins 1/11 af þeirri 500 milljarða upphæð sem núverandi ríkisstjórn hafði samþykkt án þess að depla auga. Ég tala um afarkosti af því að ljóst er að við höfum enga lagalega skuldbindingu í Icesave-málinu. En ef við tökum áhættu af því að vísa málinu í dóm EFTA hleypum við öllu í uppnám í Evrópu. Ef lögin stæðu með okkur og við sigruðum yrði allt bankakerfið í Evrópu í uppnámi. Auðvitað mun Evrópubandalagið ekki leyfa það.

Í öðru lagi eru okkur settir þeir afarkostir að kyngja valdbeitingu þjóða sem hafa komið fram við Íslendinga eins og hryðjuverkamenn; Bretar, Hollendingar og Evrópubandalagið í einum pakka. Þeir láta ella halda okkur í gíslingu á alþjóðavettvangi. (Forseti hringir.) Með þessa afarkosti er farsælla og mun minni áhætta að semja við hryðjuverkabandalagið í þessu afmarkaða máli. (Forseti hringir.) Því miður, ég segi já.