139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:09]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað á endurskoðun stjórnarskrárinnar með þátttöku almennings á Íslandi að byggjast á því sem kemur frá hjartans rótum, frá hugskoti venjulegs fólks þar sem brjóstvitið og skynsemin ræður. Við skulum ekki gleyma því, virðulegi forseti, að þar sem skynsemin hættir tekur lögfræðin við. Við skulum ekki vaða í þá villu að flækja það um of sem á að vera einfalt, sem á að vera guðs gjöf fyrir Ísland, að við veljum okkur sjálf stjórnarskrá sem er markviss og metnaðarfull.

Þetta þurfum við að rækta. Hluti af sýndarmennskunni í þessari kosningu var hvernig valið var. Hverjir hlutu kosningu? Það voru þeir sem voru þekktir úr fjölmiðlum fyrir ýmiss konar þátttöku á ýmsum forsendum, ýmist sem dekurbörn Ríkisútvarpsins eða útrásarvíkinga, varðhundar útrásarvíkinga í mörg ár — fyrst og fremst þekktir. Þetta er nokkuð sem við eigum ekki að byggja stjórnarskrá Íslands á.

Hér eru þingmennirnir sem brostu áðan þegar ég talaði um að það ætti að velja marga fulltrúa af landsbyggðinni úr kjördæmunum öllum. Ég vara menn við því að brosa að svona. Venjulegir Íslendingar láta ekkert setja sig upp að vegg. Þeir standa keikir, þeir segja ekki mikið (Forseti hringir.) en þeir standa saman þegar á reynir.