139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:41]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég var í gærkvöldi viðstaddur ræðukeppni Kvennaskólans í Reykjavík og Verslunarskóla Íslands og það var satt að segja svolítil upplifun. Ég man eftir svona ræðukeppnum þegar ég var sjálfur í menntaskóla en þær hafa breyst dálítið síðan. Þegar ég kom til þingsins í dag verð ég að viðurkenna að þessi ræðukeppni vakti svolítið í mér. Það er þannig að brögð þessarar ræðukeppni, Morfís-keppninnar í framhaldsskólum Íslands, eru sviplík þeirri uppfræðslu sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins og forustumenn hans hafa fengið frá hinum mikla leiðtoga sínum á síðari helmingi 20. aldar og yfir á þá 21., Davíð Oddssyni, sem sagði (Gripið fram í.) í hinni frægu bók um leiðtogauppeldi á Íslandi eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur að það væri alveg sama hvaða beita væri notuð bara ef hún veiddi fisk.

Það er það sem sjálfstæðismenn eru að gera, þeir eru að reyna að setja út þá beitu að almenningur fái efasemdir um það stjórnlagaþing sem setja á á fót (Forseti hringir.) og reyna að setja einhverja þröskulda í veg fyrir ríkisstjórnina.