139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:08]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki sammála mörgu sem fram kom í ræðu hv. þingmanns Sivjar Friðleifsdóttur en þó get ég tekið undir að verulegar líkur eru á því að kosningaþátttakan í uppkosningu hefði jafnvel orðið dræmari en hún var í stjórnlagaþingskosningunum og var hún þó dræm í þeim. Ef ég man rétt var kosningaþátttakan einungis í kringum 35% sem sýnir að þjóðin, af því að oft er talað um þjóðina í tengslum við stjórnlagaþing, virðist ekki hafa jafnmikinn áhuga á því fyrirbæri og einstakir þingmenn ýmissa stjórnmálaflokka sem hafa talað fyrir þeirri hugmynd.

Ég er algjörlega ósammála því sem fram kom í máli hv. þingmanns um að í tillögunni felist besti kosturinn sem uppi er eftir ógildingu kosninganna. Ég held að sá kostur sem meiri hluti nefndarinnar valdi hafi einmitt verið sá versti sem í boði var. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því, m.a. í ljósi yfirlýsinga sem fram hafa komið, að með því að samþykkja tillöguna sé Alþingi Íslendinga að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar í málinu. Hæstiréttur ógilti kosninguna, kjörbréf þessara 25 einstaklinga voru ógilt sömuleiðis. (Forseti hringir.) Ég mundi hafa áhyggjur af því ef ég væri stuðningsmaður tillögunnar og alþingismaður að ganga gegn niðurstöðu æðsta dómstóls landsins.