139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef aldrei, og ekki þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ég hef hlustað á í þessari umræðu, haldið því fram að um væri að ræða lögbrot eða stjórnarskrárbrot. Ég tel mig hafa fylgst vel með allri umræðunni og ég hef ekki heyrt þau ummæli. (MÁ: Kristján Þór taldi þetta stjórnarskrárbrot.) Já, það varðar reyndar annan þátt. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vakti athygli á mjög óljósri fjárveitingaheimild sem felst í tillögunni. Það er atriði sem ég og hv. þingmaður eigum ábyggilega eftir að skoða í hv. allsherjarnefnd, hvort því sé með haganlegum og eðlilegum hætti komið fyrir hvernig taka á ákvarðanir um útgjöld vegna stjórnlagaráðsins. Um meginhugmyndina, að stofna þetta stjórnlagaráð og velja (Forseti hringir.) tiltekna einstaklinga, höfum við ekki efast að Alþingi hafi lagalega heimild til, en við höfum bent á að það væri augljóslega verið að fara á svig við (Forseti hringir.) niðurstöðu Hæstaréttar. Því hefur ekki verið (Forseti hringir.) hafnað hér með rökum.