139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hafa menn farið ágætlega yfir efnisatriðin og ýmis sjónarmið komið fram. Margir vinklar eru á málinu. Stærsti einstaki þátturinn er samt sem áður sá að þetta er til komið vegna þess að við erum í þeirri ömurlegu stöðu að vera eina vestræna lýðræðisríkið og ekki bara vestræna, við getum bara sagt að við séum ein í hópi þeirra lýðræðisríkja sem við berum okkur saman við, þar sem Hæstiréttur hefur neyðst til að ógilda kosningu á landsvísu. Þess vegna ræðum við þetta mál.

Það er auðvitað miklu alvarlegra en menn hafa kannski áttað sig á að vera í slíkri stöðu, fyrir allar þjóðir en þó sérstaklega fyrir okkur Íslendinga sem höfum stært okkur af langri lýðræðishefð með góðum rökum. Aðrar þjóðir hafa trúað því og treyst að ef það er eitthvað sem við Íslendingar kunnum þá eru það lýðræðislegar leikreglur. Það er auðvitað ótrúlegt klúður, virðulegi forseti, að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að halda lýðræðislegar kosningar með réttum hætti. Af mörgum alvarlegum klúðrum er að taka hjá ríkisstjórninni en þetta er án nokkurs vafa á toppnum á þeim lista. Ég tel að við Íslendingar munum öll lenda í vandræðum með að útskýra fyrir fólki sem hefur áhuga á Íslandi hvernig í ósköpunum þetta gat gerst. Það gerist stundum í heiminum að kosningar fara ekki rétt fram en það gerist í þeim löndum sem við viljum ekki bera okkur saman við af því við teljum að við höfum náð lengra á réttri braut en þær þjóðir.

Við ræðum nú viðbrögð stjórnarmeirihlutans við þessari stöðu. Hún er eðli málsins samkvæmt gagnrýnd. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr grein Þráins Eggertssonar háskólakennara en hann segir í Morgunblaðinu 28. febrúar:

„Fjölmiðlar flytja þá frétt að á Alþingi íslendinga sé sennilega meiri hluti fyrir frumvarpi um að hunsa dóm Hæstaréttar og fela þeim sem kjörnir voru ólöglega til stjórnlagaþings að skrifa nýja stjórnarskrá. Það er einnig haft eftir flestum þeirra sem upphaflega náðu kjöri að þeir muni sætta sig við þennan gjörning. Hjá norrænni þjóð eru þetta ótrúleg tíðindi. Hvað er á seyði? Sjá menn ekki að böðulgangur af þessu tagi við gerð nýrrar stjórnarskrár er sömu ættar og böðulgangur fjármálafurstanna fyrir og eftir hrun? Rætur hrunsins voru einmitt í vinnubrögðum af þessu tagi. Ef fram fer sem horfir verður ný stjórnarskrá áttaviti sem í vantar nálina og vísar samtímis til allra átta. Ég leyfi mér að vona að þeir sem nú syngja laglaust finni hinn rétta tón áður en skaðinn er skeður.“

Virðulegi forseti. Það eru litlar líkur á að af því verði því ef maður þekkir vinnubrögðin á þessum stað rétt verður þetta keyrt hratt og vel í gegn.

Þeir aðilar sem eru í forustu fyrir lagadeildum háskólanna hafa sagt skoðun sína. Hér vitna ég, virðulegi forseti, í Róbert Spanó, forseta lagadeildar Háskóla Íslands. Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Það er ekki hægt að ganga út frá því með réttu að vera þeirra 25 á lista yfir þá sem urðu hlutskarpastir í stjórnlagaþingskosningum sé byggð á traustum forsendum. Velji stjórnmálamenn á Alþingi að þessir 25 skipi einhverja slíka nefnd eða ráð verður það að vera byggt á öðrum málefnalegum forsendum en þeim að þeir hafi hlotið kosningu í þessum tilteknu kosningum, sem voru metnar ógildar. Sú niðurstaða að þeir 25 sem voru í upphaflega hópnum skuli sitja í þessu ráði er ekki traust.“

Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík, segir:

„Það er í sjálfu sér heimilt að breyta lögunum um stjórnlagaþing og ákveða að það verði skipað með einhverjum öðrum hætti en með kosningu. Mér finnst þetta hins vegar óheppilegt. Hæstiréttur tók, hvort sem menn eru sammála því eða ósammála, ákvörðun um að ógilda þessar kosningar, enda væru ágallarnir það alvarlegir að hann ætti ekki annarra kosta völ. Mér finnst þessi tillaga óheppileg, vegna þess að hún felur í sér að Alþingi setur sitt mat á því hvort það átti að ógilda kosninguna á grundvelli þessara annmarka í stað mats Hæstaréttar.“

Það er kannski við hæfi að annar stjórnarflokkurinn skyldi síðan setja þann mann aftur í landskjörstjórn sem sagði af sér vegna kosninganna eins og gerðist og vakti mikla athygli. Þá hugsar maður: Hvaðan kemur þessi hugmynd, hvernig verður þetta til? Það vakti athygli mína að hæstv. forsætisráðherra nefndi í þingræðu sama dag og dómur féll, svo ég vitni í ræðuna, með leyfi forseta:

„Hugsanlega mætti líka veita Alþingi heimild með lögum til að kjósa 25 fulltrúa á stjórnlagaþingið, mögulega þá sömu og þjóðin hefur þegar kosið, meti Alþingi lýðræðislegt umboð þeirra fullnægjandi.“

Hún veltir upp hugmyndinni sama dag. Athyglisvert er að daginn eftir kom Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur einhverra hluta vegna í fréttir Ríkisútvarpsins. Hann er með sömu hugmynd og rök hans eru þessi, með leyfi forseta:

„Það er svolítið flókið að kjósa aftur vegna þess að ef þú kýst aftur geturðu náttúrlega lent í því að kosningaþátttakan fari enn þá neðar, niður í hver veit hvað, kannski 20%, 15%. Þú gætir fengið einhver allt önnur úrslit með enn þá færri atkvæðum á bak við sig og það er að mörgu leyti flókin óæskileg staða, held ég. Þannig að sennilega er skásta leiðin í þessari stöðu sú að Alþingi setji lög um stjórnlagaþing þar sem það skipar þá sem kosnir voru í kosningunni í einhvers konar nefnd sem má alveg kalla stjórnlagaþing sem hefur eins og stjórnlagaþingið ráðgefandi hlutverk gagnvart Alþingi því það verður að hafa í huga að stjórnlagaþingið hafði ekkert formlegt vald.“

Í kjölfar dr. Gunnars Helga kemur Stefán Ólafsson háskólaprófessor og hann mælir sérstaklega með því að farin verði leið sem hann kallar Gunnars Helga. Auðvitað getur þetta allt saman verið tilviljun, fyrst komi forsætisráðherra og svo í kjölfarið dr. Gunnar Helgi Kristinsson og Stefán Ólafsson sem reyna að gefa þessari hugmynd fræðilegan blæ. Vel má vera að það sé allt saman tilviljun en maður hefur séð of marga spuna hjá ríkisstjórninni og Samfylkingunni til að trúa því að öllu óbreyttu.

Nú skyldi einhver segja: Er ekki allt í lagi að spinna? Það er ekki nokkur vafi á því að eitt af því sem hefur komið íslenskri þjóð í vanda og mörgum öðrum er þegar menn gleyma innihaldinu og hugsa bara um umbúðirnar, líta svo á að aðalatriðið sé að vinna umræðuna hverju sinni í stað þess að taka á innihaldi og kjarna málsins. Einhver kynni að halda að þetta sé eitthvað nýtt. Þetta er ekki nýtt — þetta er nákvæmlega það sama og Sókrates átti við að etja á sínum tíma. Þetta er mörg þúsund ára gömul deila um hvort menn skuli ræða um innihaldið, kjarnann eða hvort menn skuli nálgast hlutina þannig að aðalatriðið sé að vinna umræðuna í hvert skipti.

Það getur vel verið að einhverjum hafi fundist þessi redding hafa trúverðuglegan blæ en innihaldið er einfaldlega þetta: Við lentum í því að íslenska ríkisstjórnin gat ekki haldið löglegar landskosningar og við erum eina vestræna ríkið, sem hefur lent í því. Núna ætlar stjórnarmeirihlutinn að reyna að smokra sér fram hjá vilja Hæstaréttar með reddingu. Virðulegi forseti, það segir manni bara það að þeir sem eru við stjórnvölinn (Forseti hringir.) hafa einfaldlega ekkert lært og það eru afskaplega slæmar fréttir fyrir íslenska þjóð.