139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fríverslunarsamningur EFTA og Albaníu og landbúnaðarsamningur Íslands og Albaníu.

681. mál
[16:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Utanríkisráðuneytið er jafnan upptekið við að reyna að greiða götu viðskipta íslenskra fyrirtækja og einstaklinga við aðrar þjóðir. Í því þingmáli sem ég mæli hér fyrir er einmitt verið að feta þá slóð áfram. Hún felur í sér heimild handa ríkisstjórninni til þess að fullgilda fyrir hönd Íslands fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Albaníu sem var undirritaður í Genf 17. desember 2009. Samtímis leita ég heimildar til að fullgilda landbúnaðarsamning millum þessara tveggja ríkja sem var undirritaður sama dag.

Samningurinn við Albaníu mun afnema eða draga úr viðskiptahindrunum og mun bæta samkeppnisstöðu EFTA-ríkjanna í Albaníu, þar á meðal talið Íslands.

Herra forseti. EFTA-ríkin hafa gert 22 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa, að samningnum við Albaníu meðtöldum. Í tengslum við þessa samninga hafa verið gerðir sérstakir tvíhliða samningar millum einstakra EFTA-ríkja og viðkomandi ríkis eða ríkjahóps um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur. Ákaflega lítið hefur verið flutt út undanfarin ár til Albaníu. Árið 2008 nam vöruútflutningur til Albaníu aðeins ríflega 10 millj. kr. Vöruinnflutningur frá þessu ríki hefur numið í kringum 7–8 milljónum síðustu ár. Mest er flutt inn af fatnaði og skóm. Næsta áratug er hins vegar gert ráð fyrir því að hagvöxtur glæðist mjög í Albaníu sem er nú að ryðja sér braut til aukins lýðræðis og frekari framfara. Gert er ráð fyrir því að þar með aukist þau færi sem íslensk fyrirtæki hafa á því að eiga ábatasöm viðskipti við Albani.

Fríverslunarsamningur við Albaníu kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á helstu útflutningsafurðir frá Íslandi falla niður.

Landbúnaðarsamningurinn sem ég gat um áðan er gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA og Albaníu. Undir hann falla viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur. Hann kveður á um að tollar á tilteknum landbúnaðarvörum verði lækkaðir eða felldir niður. Þannig mun Albanía fella niður tolla á vatn, lifandi hross og osta frá því samningurinn tekur gildi. Ísland mun m.a. fella niður tolla á ýmsar matjurtir og ávaxtasafa.

Ég legg til, frú forseti, að þegar þessi umræða er búin verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.