139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið áhugaverðar umræður um stöðuna í stjórnmálum. Það er gott að við komum hér og skiptumst á skoðunum um það hvernig staðan er núna, hvað var leitt í ljós með tillögu okkar um vantraust og um hvað ágreiningurinn snýst.

Hv. þm. Magnús Orri Schram segir að ríkisstjórnin eigi að sitja á meðan hún hafi erindi. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég tel erindi hennar löngu lokið en ég er viss um að hann er ekki sammála því. Hann sagði líka að Evrópusinnar þessa lands þyrftu að tryggja að þessi ríkisstjórn starfaði áfram vegna þess að án hennar gengi Ísland ekki í Evrópusambandið. (MSch: Sótt um aðild.) Sótt um aðild, vissulega er búið að gera það. Ég vona að hv. þingmenn Vinstri grænna, allir sem einn, hafi verið að hlusta og ég vona að grasrótin í Vinstri grænum hafi verið að hlusta og ég vona að allir Evrópusinnarnir í Vinstri grænum hafi líka verið að hlusta vegna þess að þarna kemur þetta mjög skýrt fram, þessi ríkisstjórn hefur það erindi að ljúka samningum við Evrópusambandið. Ég leyfi mér að fullyrða að vilji Samfylkingarinnar er að við verðum komin þangað inn áður en við vitum af. Ég vona þó sannarlega að það verði ekki þannig.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði að við gætum ekki verið með öll mál í ágreiningi á þinginu. Þar er ég fullkomlega sammála. Ég skora á hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, sem hefur t.d. verið ötul í að tala ágreining inn í sjávarútvegsumræðuna, að reyna að miðla málum á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem liggur fyrir í sáttanefnd sem kölluð var vegna þess að þingmenn og fulltrúar allra hagsmunaaðila tóku þátt í þeirri umræðu, einmitt með það að markmiði að leysa málið í sátt en ekki ágreiningi. (Forseti hringir.) Ég sendi boltann beint aftur til hv. þingmanns.